Botnlið Snæfells ferðaðist norður á Sauðárkrók í gær og mætti liði Tindastóls í sjöttu umferð Domino‘s deildar karla í körfuknattleik. Ungt lið Snæfells hefur átt erfitt uppdráttar það sem af er vetri og að lokum fór svo að Tindastóll vann stórsigur, 100-57. Í stuttu máli sáu Snæfellingar aldrei til sólar í leiknum. Heimamenn tóku öll völd á vellinum strax á upphafsmínútunum og náðu mest 21 stigs forskoti eftir aðeins átta mínútna leik. Snæfellingar klóruðu aðeins í bakkann undir lok fjórðungsins og staðan fyrir annan leikhluta 26-10, Tindastóli í vil. Sauðkrækingar héldu áfram að bæta við forskot sitt í öðrum fjórðungi og höfðu mjög afgerandi 28 stiga forskot í hálfleik, 49-21. Snæfellingar voru hvað sprækastir í þriðja leikhluta, skoruðu jafn mörg stig í honum og öllum fyrri hálfleikum eða 21 stig. Það dugaði þeim hins vegar skammt því heimamenn skoruðu 25 stig í leikhlutanum og munurinn á milli liðanna minnkaði lítið. Í lokafjórðungnum bættu Stólarnir enn við og unnu að lokum stórsigur, 100-57. Viktor Marinó Alexandersson var stigahæstur Snæfellsmanna með ellefu stig, Maceij Klimanszewski skoraði tíu og þeir Andrée Fares Michelsson og Þorbergur Helgi Sæþórsson voru með níu stig hvor. Snæfell er stigalaust á botni deildarinnar eftir fyrstu sex leiki tímabilsins. Næst leikur Snæfell fimmtudaginn 17. nóvember þegar liðið tekur á móti Skallagrími í Vesturlandsslag í Stykkishólmi.