Í gærkvöldi tók Snæfell á móti Skallagrími í Vesturlandsslag Domino‘s deildar kvenna í körfuknattleik. Liðin mættust í Borgarnesi í fyrsta leik vetrarins og þá höfðu Skallagrímskonur betur, 73-62. Annað var uppi á teningnum í Stykkishólmi í gær, því Íslandsmeistarar Snæfells náðu fram hefndum og sigruðu með 72 stigum gegn 57.
Snæfellskonur byrjuðu mun betur í leiknum og náðu snemma góðri forystu. Um miðjan upphafsfjórðunginn leiddu þær 13-2 og Skallagrímskonur áttu erfitt uppdráttar. Þegar leikhlutinn var úti var staðan 18-10 en í upphafi annars fjórðungs tóku leikar að jafnast. Skallagrímskonur minnkuðu muninn lítillega áður Íslandsmeistararnir juku hann á ný. Mikill stígandi var í leik Snæfellsliðsins í öðrum fjórðungi sem bætti jafnt og þétt við allt þar til síðustu mínúturnar fyrir hálfleik. Þá áttu Skallagrímskonur mjög góðan leikkafla og náðu snarlega að minnka forskot Snæfells úr 14 stigum niður í fimm, 38-33.
[caption id="attachment_8147" align="alignright" width="385"] Tavelyn Tillman tekur „fadeaway“ stökkskot. Ljósm. Skallagrímur.[/caption]
Bæði lið komu ákveðin til síðari hálfleiks og fast var spilað í þriðja leikhluta. Hvorugt lið ætlaði að gefa tommu eftir og leikurinn varð aðeins sveiflukenndur. Aftur kláruðu Skallagrímskonur af krafti og Snæfell leiddi með aðeins fjórum stigum fyrir síðasta leikhlutann, 53-49. Þar sýndu Íslandsmeistararnir aftur á móti úr hverju þær eru gerðar.Þær juku forskotið sitt jafnt og þétt þar til þær höfðu þægilegt 14 stiga forskot þegar aðeins fimm mínútur lifðu leiks. Þá hægðist á stigaskorinu en Snæfelli munaði ekkert um það því liðið hélt Skallagrími í aðeins átta stigum allan fjórðunginn. Lokatölur 72-57, Snæfelli í vil.
Aaryn Ellenberg var atkvæðamest í liði Snæfells með 34 stig og tíu fráköst. Berglind Gunnarsdóttir var með 18 stig og fimm fráköst og Gunnhildur Gunnarsdóttir með ellefu stig og fjögur fráköst. Hjá Skallagrími var Tavelyn Tillman atkvæðamest með 24 stig og sjö fráköst og Sigrún Ámundadóttir var með 13 stig, 13 fráköst og fimm stoðsendingar.
Snæfell lyfti sér á toppinn
Staða liðanna í deildinni er þannig að Snæfellskonur eru komnar í toppsætið með tólf stig eftir fyrstu átta leikina, jafn mörg og Keflavík í sætinu fyrir neðan. Skallagrímur er svo ekki langt undan, með tíu stig í þriðja sæti.
Bæði lið leika næst á sunnudaginn, 12. nóvember næstkomandi. Skallagrímur tekur á móti Stjörnunni en Snæfell heimsækir Njarðvík.