Framundan eru tveir síðustu landsleikirnir í undankeppni EM, EuroBasket kvenna 2017, hjá kvennalandsliðinu í körfuknattleik. Ívar Ásgrímsson þjálfari og Bjarni Magnússon aðstoðarþjálfari hafa valið 15 manna æfingahóp sem kemur fyrst saman þann 13. nóvember til æfinga. Af þeim eru fimm konur af Vesturlandi. Það eru systurnar Berglind og Gunnhildur Gunnarsdóttir og Pálína María Gunnlaugsdóttir frá Snæfelli en frá Skallagrími koma Sigrún Sjöfn Ámundadóttir og Ragnheiður Benónísdóttir, sem er nýliði í landsliðshópnum. Leikirnir í nóvember eru gegn Slóvakíu 19. nóvember ytra og hér heima í Laugardalshöllinni miðvikudaginn 23. nóvember gegn Portúgal. Með þessum leikjum lýkur undankeppninni fyrir EM á næsta ári sem hófst í nóvember 2015 eftir nýju keppnisfyrirkomulagi FIBA hjá konunum.