Veltuaukning í allri tegund verslunar

„Mikil veltuaukning í smásöluverslun í síðasta mánuði sýnir greinileg merki um kaupmáttaraukningu frá sama mánuði í fyrra. Í sumum vöruflokkum jókst veltan um fjórðung frá því í fyrra. Má þar nefna húsgögn, byggingavöru og snjallsíma. Matur og drykkur var heldur ekki skorinn við nögl því velta dagvöruverslana var 9,1% meiri en í september í fyrra og velta áfengisverslana var 30% meiri en í sama mánuði í fyrra. Þetta er meðal niðurstaðna í könnun sem Rannsóknasetur verslurinnar framkvæmir reglulega.

Kippur varð í fataverslun í september, sem var 8,3% meiri en í september í fyrra. Að magni til jókst sala á fötum 14,8%. Magnaukningin orsakast af því að verð á fötum var 5,7% lægra en í samanburðarmánuðinum í fyrra. Þetta skýrist aðallega af afnámi tolla á föt um síðustu áramót.

Þó vöxtur í sölu raftækja sé ekki eins afgerandi og í öðrum flokkum, í samanburði söluna í sama mánuði í fyrra, skýrist það af mikilli sölu í fyrra. Þó var velta í sölu á snjallsímum 28,7% meiri en í fyrra. Leiða má líkur að því að sala á nýjustu Apple símunum hófst, en byrjað var að selja Iphone-7 í lok mánðarins. Mikill uppgangur er enn í húsgagnaverslun sem sést á því að veltan var fjórðungi meiri en í september í fyrra. Velta sérverslana sem selja rúm jókst um 65% á milli ára og sala skrifstofuhúsgagna um 36%. Þá njóta byggingavöruverslanir góðs af uppsveiflu í húsbyggingum þar sem salan jókst um 23,6%.

Kortavelta Íslendinga í september nam 73,9 milljörðum eða 5,5% meira en í sama mánuði 2015 samkvæmt tölum Seðlabankans. Af þeirri fjárhæð greiddu Íslendingar 10,3 milljarða erlendis en 63,6 milljarða hér á landi. Erlend kortavelta hérlendis nam í september 21,7 milljörðum og standa erlendir ferðamenn því að baki ríflega fjórðungi kortaveltu hérlendis þó komið sé fram í september.

Líkar þetta

Fleiri fréttir