Gengið verður til kosninga til Alþingis laugardaginn 29. október. Verður það í annað skipti á árinu sem Íslendingar ganga til kosninga, því í vor var kjörinn nýr forseti. Hér má sjá Eðvarð Jón Sveinsson í Borgarnesi skila inn sínu atkvæði í forsetakosningunum.

Tíu flokkar skiluðu inn framboðslistum í Norðvesturkjördæmi

Tíu stjórnmálaflokkar skiluðu inn framboðslistum í Norðvesturkjördæmi, en frestur til að skila inn framboði vegna Alþingiskosninga 29. október næstkomandi rann út á hádegi í dag. Þau framboð sem skiluðu inn listum og hyggjast bjóða fram í kjördæminu eru, í stafrófsröð: Björt Framtíð, Dögun, Flokkur Fólksins, Framsóknarflokkurinn, Íslenska þjóðfylkingin, Píratar, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Vinstrihreyfingin grænt framboð.

Lágmarksfjöldi meðmæla vegna framboðs í Norðvesturkjördæmi eru 240 undirskriftir kosningabærra manna. Ef einhver skrifar undir meðmæli með fleiri en einum lista fellur undirskrift viðkomandi út alls staðar. Þá þarf að gæta þess að framboðslistinn sjálfur sé gildur, til dæmis að allir sem hann skipa séu samþykkir því að vera í framboði.

Að sögn Kristjáns G. Jóhannssonar, formanns yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis, verður í dag farið yfir framboðslistana og öll gögn sem þeim fylgja, undirskriftir og fleira til að ganga úr skugga um að allt sé lögum samkvæmt. Stefnt er að því að úrskurða um lögmæti framboðslistanna á morgun kl. 15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir