Byggt verður við norðaustur horn hótelsins, 28 ný herbergi. Búið er að taka grunn og undirbúa jarðvegsskipti. Ljósm. mm.

Hefja undirbúning að stækkun Fosshótels í Reykholti

Verulegar framkvæmdir eru framundan við Fosshótel Reykholti. Til stendur að stækka hótelið umtalsvert,bæta við 28 herbergjum við þau 53 sem fyrir eru. Þá á að gera miklar endurbætur á eldri hluta hótelsins, svo sem að endurnýja öll eldri herbergin, stækka móttöku og fara í framkvæmdir í kjallaranum „Við erum byrjaðir að moka fyrir grunninum á viðbyggingunni, fyrsta skóflustungan var tekin um daginn,“ segir Arnþór Pálsson hótelstjóri í Reykholti í samtali við Skessuhorn. Hótelinu verður lokað næstkomandi mánudag, 17. október. „Við opnum ekki aftur fyrr en í lok mars á næsta ári. Þá verður fyrsti hlutinn opnaður en við ætlum að gera þetta í tveimur hollum. Í vetur verður móttakan tekin í gegn og stærsti hluti herbergjanna. 20 bestu herbergin verða látin bíða og þau verða tekin í gegn á næsta ári.“

Það eru TVT ehf. sem sér um byggingar- og verkefnastjórn en að sögn Arnþórs verður vinnan einnig unnin mikið í samstarfi við heimamenn. „Steini Guðmunds sér um uppgröftinn, hann er kominn með einhverja iðnaðarmenn úr sveitinni og er að leita að fleirum. Þetta er allt unnið í samstarfi við heimafólk.“ Arnþór segir allt verða tekið í gegn á hótelinu og að ekkert verði skilið eftir. „Þetta er heildarverkefni sem ráðist verður í núna og næsta vetur. Við munum þegar upp er staðið endurnýja öll herbergi, byggja við hótelið að framan og stækka móttökuna. Við ætlum að taka kjallarann í gegn og þar verður flott heilsulind. Á efstu hæð hótelsins ætlum við að koma fyrir norðurljósastofu, þar sem gestir geta setið inni í hlýjunni og horft á norðurljósin í gegnum gler,“ segir Arnþór að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir