Frá hjólaæfingu við skólann. Ljósm. úr safni Skessuhorns.

Fjórir hafa slasast eftir að skemmdarverk voru unnin á reiðhjólum þeirra

Skemmdarverk hafa á undanförnum vikum verið unnin á reiðhjólum nemenda við Grundaskóla á Akranesi. Losað hefur verið um festingar á framdekkjum hjólanna og átt við bremsubúnað með alvarlegum afleiðingum. Þetta hefur meðal annars leitt til að a.m.k fjórir nemendur hafa slasast við það að falla af hjólum sínum. Í tilkynningu sem skólinn hefur sent aðstandendum kemur fram að lögregla hafi verið fengin til að ræða við nemendur á miðstigi og unglingastigi skólans um alvarleika slíkra skemmdarverka. Lögregla kom m.a. inn á það í samtali við nemendur að nákvæmlega svona skemmdarverk hafa leitt af sér mjög alvarleg slys í gegnum tíðina og jafnvel dauðaslys. „Við lítum þetta mjög alvarlegum augum og viljum gera allt til að uppræta svona hegðun sem fyrst. Við viljum biðja ykkur foreldra/forráðamenn að ræða þetta mál heima og ekki síst brýna fyrir börnunum að athuga vel með hjólin sín áður en byrjað er að hjóla,“ segir í bréfi skólans til foreldra barna í Grundaskóla.

Líkar þetta

Fleiri fréttir