Skattar af ferðamönnum áætlaðir 445 milljarðar á næsta kjörtímabili

Á fundi sem Samtök ferðaþjónustunnar efndu til með fulltrúum stjórnmálaflokka í Suðvesturkjördæmi í vikunni kom fram að SAF áætlar að ríkissjóður fái 445 milljarða króna í skatta og gjöld af erlendum ferðamönnum á næstu fjórum árum. Þessi áætlun byggir á spá um 13-20% fjölgun ferðamanna á ári á tímabilinu. Áætlað er að erlendir ferðamenn skili 440 milljarða króna gjaldeyristekjum á þessu ári og beinar tekjur ríkissjóðs vegna þeirra verði um 70 milljarðar króna.

Í ræðu Gríms Sæmundsen, formanns SAF, kom fram að miðað við þessa spá verði heildar gjaldeyristekjur af komu ferðamanna 2.700 milljarðar króna á næsta kjörtímabili. Grímur setti upphæðina í samhengi við það að á þessu ári er áætlað að heildar landsframleiðsla Íslendinga verði 2.400 milljarðar króna.

Á fundinum með fulltrúum flokkanna bentu SAF á mikilvægi þess að byggja upp nauðsynlega innviði til að mæta fjölgun ferðamanna og tryggja ávinninginn af komu þeirra. Að öðrum kosti væri veruleg hætta á því að félagsleg þolmörk íbúa myndu bresta og álag á vinsæla ferðamannastaði færi úr böndunum. Með réttri fjárfestingu mætti bregðast við í tæka tíð til að tryggja ánægju gesta jafnt sem heimamanna og að ferðaþjónustan verði sjálfbær.

 

Átta milljörðum á ári varið í nauðsynlega uppbyggingu

Formaður SAF benti á að nú þegar lægi fyrir hvað þyrfti að gera til að mæta fjölgun ferðamanna með sómasamlegum hætti á komandi kjörtímabili. Úrlausnarefnin kæmu fram í Vegvísi í ferðaþjónustu sem kom út í fyrra. Samkvæmt því áætla samtökin að hið opinbera þurfi að verja um átta milljörðum króna á ári næstu fjögur árin, samtals 32 milljörðum króna, í nauðsynlega uppbyggingu. Þessi upphæð er 7% af áætluðum tekjum ríkissjóðs af ferðaþjónustunni á tímabilinu. Þau verkefni sem fyrir liggur að ráðast þurfi í snúa m.a. að bættri upplýsingagjöf, öryggi ferðamanna, áhættustýringu, náttúruvernd, uppbyggingu áfangastaða, salernisaðstöðu, stuðningi við menntun og raunfærnimat, dreifingu ferðamanna og lagabreytingum sem stuðla að skilvirkari stjórnsýslu fyrir ferðaþjónustuna.

 

Fundur í Norðvesturkjördæmi í kvöld

Fundur SAF með fulltrúum flokkanna í Suðvesturkjördæmi var haldinn í Mosfellsbæ og var fyrsti fundur af fimm sem samtökin halda í kjördæmum landsins. Fundurinn var vel sóttur og hátt í 200 manns fylgdust með honum í beinni útsendingu á vefsíðu SAF.

Næsti fundur verður haldinn fyrir Norðvesturkjördæmi í Menntaskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi í kvöld, fimmtudaginn 13. október kl. 20.00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir