Jafnaðarmenn setja heilbrigðisþjónustuna, málefni eldri borgara og húsnæðismál á oddinn

Guðjón S. Brjánsson skipar oddvitasætið á lista Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi, sem að venju býður fram undir listabókstafnum S. Guðjón er fæddur á Akureyri 1955 og er kvæntur Dýrfinnu Torfadóttur gullsmið og eiga þau tvo syni og fimm barnabörn. Hann lærði félagsráðgjöf í Noregi og stundaði stjórnunarnám í Bandaríkjunum í eitt ár. Samhliða starfi nam hann við Norræna heilsuháskólann í Gautaborg og lauk þaðan meistaragráðu í lýðheilsufræðum í lok árs 2014. Guðjón er forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands og hefur verið undanfarin fimmtán ár. Hann hefur starfað í félags- og heilbrigðisþjónustu frá árinu 1979, sem forstöðumaður í öldrunarþjónustu, félagsmálastjóri á Ísafirði og sem forstjóri Heilbrigðisstofnunarinnar í Ísafjarðarbæ. Hann var meðal annars forstöðumaður Dalbæjar á Dalvík og kom því dvalarheimili á laggirnar og sömu sögu er að segja um Múlabæ í Reykjavík. Hann segist hafa verið heppinn að fá tækifæri til að taka þátt í þeirri uppbyggingu. Til fjölda ára hefur hann verið virkur þátttakandi í félagsstarfi sem tengist heilbrigðis- og velferðarmálum og hefur til dæmis verið í stjórn Alzheimersamtakanna, þar sem hann er varaformaður nú. Þá situr hann í stjórn Félags forstöðumanna ríkisstofnanna, Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands og Norræna félagsins á Akranesi svo eitthvað sé nefnt. „Mér hefur liðið mjög vel á öllum mínum vinnustöðum. Ég hef verið lukkunnar pamfíll í mínum störfum. Alls staðar hef ég starfað með afburða fólki og vinnuandi verið góður. Mér hefur tekist að virkja fólk til góðra verka og það er mikil lífsfylling,“ segir Guðjón.

Rætt er við oddvita Samfylkingarinnar í NV kjördæmi í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir