Fögnuðu 35 ára afmæli Grundaskóla

Fimmtudaginn 6. október var haldið upp á 35 afmæli Grundaskóla á Akranesi með ýmsum hætti. Farið var í skrúðgöngu um morguninn frá skólanum og í íþróttahúsið að Jaðarsbökkum þar sem fram fór samsöngur hjá öllum bekkjardeildum skólans. Þá var starfsfólki boðið í afmæliskaffi en í Safnaskálanum í Görðum var opnuð leikmunasýning úr söngleikjum skólans. Það er textílkennari Grundaskóla og listamaðurinn Friðrika Eygló Gunnarsdóttir sem hefur saumað og hannað alla leikbúninga sem notaðir hafa verið á sýningunum.
Sigurður Arnar Sigurðsson skólastjóri ritaði grein í síðasta Skessuhorn þar sem hann rakti meðal annars sögu skólans, áherslur og sérstöðu. Þar segir hann að Grundaskóli hafi alla tíð lagt áherslu á opið skólastarf og að skólahúsið hafi verið hannað með það í huga að auðvelt væri að opna kennslurými og brjóta upp hefðbundið skólastarf. Nemendur Grundaskóla eru í dag 630 og er því skólinn með þeim fjölmennari á landinu. Nemendafjöldi hefur farið vaxandi að undanförnu og hefur verið fjölgað færanlegum kennslustofum á skólalóð til að hægt sé að rúma alla nemendur. Fyrsti skólastjóri Grundaskóla var Guðbjartur Hannesson, þá tók Hrönn Ríkharðsdóttir við og loks frá síðasta hausti Sigurður Arnar Sigurðsson.

Líkar þetta

Fleiri fréttir