Hljómsveitin Ylja lék fyrir gesti á Rúben á Rökkurdögum í fyrra. Lifandi tónlist skipar stóran sess í dagskrá Rökkurdaga í ár, en hátíðin að þessu sinni hefst með opnun myndavefjarins baeringsstofa.is.

Rökkurdagar framundan í Grundarfirði

Rökkurdagar í Grundarfirði verða haldnir 13. til 22. október næstkomandi. Rökkurdagar eru árleg menningarhátíð í sveitarfélaginu og er þetta í fimmtánda sinn sem hún fer fram. Að vanda verður nóg um að vera. „Við ætlum að byrja Rökkurdaga á því að opna myndavefinn www.baeringsstofa.is, sem er myndasafn Grundfirðingsins Bærings Cecilssonar. Hann var bæði áhugaljósmyndari og fréttaljósmyndari fyrir sjónvarpið og dagblöð. Eftir hann liggja tugir þúsunda mynda og hefur hluti þeirra verið skannaður inn í tölvu. Myndir Bærings spanna sögu þéttbýlisins í Grundarfirði og eru fábærar og dýrmætar heimildir í varðveislu bæjarins,“ segir Sigríður Hjálmarsdóttir menningar- og markaðsfulltrúi Grundafjarðarbæjar. Að sögn Sigríðar samanstendur dagskrá Rökkurdaga af hinum ýmsu menningarviðburðum og er reynt að höfða til sem flestra. „Þarna má finna fasta liði eins og Pub Quz, markað kvenfélagsins og félagsvist. Þá verður Opna Rökkurmótið í Skrafli haldið annað árið í röð en það vakti mikla lukku á síðustu Rökkurdögum.“ Lifandi tónlist skipar stóran sess í dagskrá Rökkurdaga í ár og verða tónleikar í kirkjunni, á Kaffi Emil og 59 Bístróbar. Eins verða ýmis tilboð á veitingastöðum og kaffihúsum bæjarins. „Við fáum töframanninn Einar Mikael í heimsókn og hann ætlar að vera bæði með námskeið og sýningu í Samkomuhúsinu, undir nafninu Töfraheimur Einars Mikaels. Það eru allir velkomnir og ókeypis aðgangur á viðburði töframannsins. Miðvikudaginn 19. október ætla grínararnir Ari Eldjárn og Björn Bragi að leggja land undir fót og verða með uppistand sitt „Á tæpasta vaði“ í Samkomuhúsinu í Grundarfirði,“ heldur Sigríður áfram.

 

Opinn október á Snæfellsnesi

Í ár eru Rökkurdagar hluti af stærra verkefni sem kallast Opinn október á Snæfellsnesi og er það unnið í samstarfi við Svæðisgarðinn Snæfellsnes. „Við sáum að það væri alveg kjörið að setja saman í einn pott alla þá árlegu viðburði sem eru á Nesinu í október, enda eru öll sveitarfélögin með einhvern viðburð,“ útskýrir Sigríður. Viðburðir Opins októbers eru meðal annars fjölmenningarhátíð í Rifi, Rökkurró í Lýsuhólslaug, Northern Wave kvikmyndahátíðin sem haldin verður í Rifi í ár, Norðurljósaskoðun í Helgafellssveit, Norðurljósahátíð í Stykkishólmi auk Rökkurdaga og fleiri viðburða. „Snæfellsnesið er í raun eitt markaðssvæði og því kjörið að fara milli staða og sækja þá viðburði sem fólk hefur áhuga á,“ segir Sigríður að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir