Svipmynd úr kjördeild í Borgarnesi við alþingiskosningarnar 2013. Ljósm. úr safni.

#ÉgKýs – Lýðræðisvika og skuggakosningar í framhaldsskólum

Landssamband æskulýðsfélaga og Samband íslenskra framhaldsskólanema standa fyrir lýðræðisátakinu „Kosningavakning: #Ég Kýs“. Markmið þess er að efla lýðræðisvitund og hvetja ungt fólk til að kjósa eftir upplýstri ákvörðun í kjörklefanum, segir í tilkynningu. Í því felst að halda lýðræðisviku og skuggakosningar í framhaldsskólum undir formerkjum netherferðarinnar #ÉgKýs. Auk þess hefur heimasíðan: egkys.is verið opnuð. Hún virkar sem gagnabanki fyrir lýðræðisfræðslu og geymir upplýsingar sem eru hugsaðar til að hjálpa ungu fólki að ákveða hvað kjósa skal. Á heimasíðunni getur almenningur jafnframt nýtt sér Kosningavitann (gagnvirk vefkönnun sem sýnir kjósendum hvar þeir standa í samanburði við framboð til Alþingis)

Innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra hvöttu alla framhaldsskóla landsins til að taka þátt. Nú hafa flestir skólar staðfest þátttöku sína eða 24 af 30 og verða því 13.964 nemendur á aldrinum 16-21 árs á kjörskrá. Þeir sem eru að kjósa í fyrsta sinn til Alþingis verða þannig undirbúnir til að kjósa fyrir alvöru og þeim sem ekki hafa náð kosningaaldri verður gefin rödd.

Lýðræðisvikan hefst 10. október, en þá eru kennarar hvattir til að leggja fyrir lýðræðistengd verkefni og stuðla að stjórnmálaumræðu í kennslustundum. Lýðræðisvikan endar á skuggakosningum sem settar eru upp eins og almennar kosningar fimmtudaginn 13. október. Hver skóli hefur myndað yfirkjörstjórn, skipuð nemendum og einum kennara. Þannig munu nemendur fá tækifæri til að læra að framkvæma lýðræðislegt kosningaferli undir leiðsögn kennara. Niðurstöðurnar verða birtar á sama tíma og fyrstu tölur alþingiskosninga 29. október. „Síðar verður gefin út skýrsla um framkvæmd og niðurstöður skuggakosninga, enda munu þær skapa mikilvæga þekkingu um kosningahegðun ungs fólks og vonandi auka þátttöku, efla lýðræðislega borgaravitund og verða að hefð í skólum í framtíðinni,“ segir í tilkynningu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir