Hjónin Sigrún Þrastardóttir og Hlynur Benediktsson létt í bragði á heimili þeirra á Akranesi.

„Fólkið er ótrúlega vinalegt og við eigum orðið marga vini hér á Akranesi“

Hjónin Sigrún Þrastardóttir og Hlynur Benediktsson fluttust á Akranes snemma hausts á síðasta ári ásamt börnum sínum. Láta þau bæði mjög vel af bænum og eru ófeimin við að leyfa fólki að heyra það. Hafa þau undanfarið ár einsett sér að einblína á kostina við staðinn, fremur en þá fáu ókosti sem þau segjast hafa rekið sig á. Skyldi því engan undra að þau bera Akranesi mjög vel söguna. Skessuhorn hitti Sigrúnu og Hlyn að heimili þeirra á Vesturgötu síðastliðinn fimmtudag og fékk að heyra þeirra upplifun af bænum. En af hverju ákváðu þau að flytja á Akranes í upphafi? „Ástæðan var nú einfaldlega sú að við vorum að sprengja utan af okkur íbúðina í Reykjavík og vorum farin að líta í kringum okkur eftir stærra húsnæði. Þegar við fórum að skoða þetta sáum við að við gátum selt 80 fermetra íbúðina okkar og keypt einbýlishús með garði í staðinn,“ segir Hlynur.

„Þannig að frumástæða þess að við fórum að velta því fyrir okkur að flytja hingað er ekki meira spennandi en það,“ bætir Sigrún við og brosir. Í framhaldinu fóru þau að kanna nærumhverfið og spyrjast fyrir um hvernig málunum væri háttað á Akranesi. „Systir mín býr hér og hefur alltaf látið vel af bænum. Einnig höfðum við heyrt vel látið af skólunum og þegar við könnuðum máli sáum við að það var fyllilega verðskuldað. Einnig sýndist okkur að öll þjónusta sem hér er veitt, allt frá sérþjónustu innan veggja skólans til spítalans, væri mjög góð,“ segir Hlynur. „Við ákváðum því að flytja hingað og sjáum alls ekki eftir því,“ segir Sigrún. „Þetta er einhvern veginn miklu manneskjulegra allt saman en það sem við höfðum rekið okkur á í höfuðborginni. Allir boðnir og búnir að stíga þetta auka skref til að manni líði vel,“ segir Hlynur. „Fólkið er ótrúlega vinalegt og við eigum orðið marga vini hér á Akranesi,“ bætir Sigrún við.

Í Skessuhorni sem kom út í dag er áhugavert viðtal við þau hjón þar sem þau m.a. hvetja bæjarbúa til að líta björtum augum á hlutina og forðast að tala bæjarfélagið sitt niður.

Líkar þetta

Fleiri fréttir