Kartöflusýning og fræðslufundur um kartöflufræ

Á morgun, miðvikudaginn 5. október kl. 19:30, verður kartöflusýning og fræðslufundur í sal Garðyrkjufélagsins, Síðumúla 1 í Reykjavík. Flutt verður stutt erindi um kartöflurækt af fræi, frækartöflur í flestum litum regnbogans verða til sýnis og gestum gefst kostur á að spyrja og spjalla. Undanfarin ár hafa nokkrir félagar í Garðyrkjufélagi Íslands fengist við að rækta kartöflur upp af fræi. Markmið þeirra er að rækta ný og óvenjuleg yrki sem þrífast vel hér á landi og gefa félögum kost á að rækta kynlegar kartöflur. Síðastliðið vor gátu félagar í fyrsta skipti pantað kartöflufræ af frælista félagsins og stefnt er að því að bjóða upp á enn meira úrval af þeim næsta vor. Innan fárra ára stendur til að bjóða félögum Garðyrkjufélagsins einnig upp á óvenjulegt útsæði.

Í hefðbundinni kartöflurækt eru settar niður kartöflur og uppskeran verður alveg eins og móðurkartaflan. Þegar kartöflur eru ræktaðar af fræi er hvert fræ mögulega nýtt yrki og engar tvær fræplöntur eins. Jafnvel þó fræin komi úr sama kartöflualdininu hafa þau mismunandi eiginleika hvað varðar lit, bragð, áferð, geymsluþol, mótstöðu gegn kvillum og margt fleira. Ræktun af fræi er dálítið eins og fjársjóðsleit og getur verið æsispennandi að taka upp og sjá hvað leynist undir hverju grasi.

Hér á landi eru fá kartöfluyrki í almennri ræktun. Reglur um útsæðiskartöflur eru strangar enda er mikilvægt að koma í veg fyrir að alvarlegir kartöflusjúkdómar breiðist út. Því getur verið snúið að útvega útsæði af ,,skrítnum“ kartöflum. Kartöflufræ geta verið skemmtileg viðbót í matjurtagarða landsmanna. Ræktunin er í sjálfu sér einföld þó það taki tvö sumur að fá fulla uppskeru.

Fræðslufundurinn er öllum opinn og eru félagar eru hvattir til að taka með sér gesti. Kaffigjald er krónur 750. Fræðslufundurinn er umsjón Kartöfluhóps innan Matjurtaklúbbs Garðyrkjufélagsins.

-fréttatilkynning

Líkar þetta

Fleiri fréttir