Átta slys og óhöpp í umferðinni á einni viku

Samtals urðu átta umferðaróhöpp í umdæmi Lögreglunnar á Vesturlandi í síðustu viku. Á föstudsag var harður árekstur þegar sjúkrabíll í forgangsakstri lenti á jeppling á Vesturlandsvegi á móts við Gufuá. Þar voru allir í öryggisbeltum og því fór mun betur en á horfðist í fyrstu, að sögn lögreglu. Tveir erlendir ferðamenn slösuðust minniháttar er bílaleigubíll þeirra fór útaf og valt við Háls á Skógarströnd í gær. Voru þeir fluttir til aðhlynningar á Sjúkrahúsið á Akranesi. Fjórar kínverskar stúlkur sluppu með skrekkinn er þær lentu út í Hraunhafnará á Snæfellsnesi á bílaleigubílnum sínum, enda voru þær allar í öryggisbeltum, bíllin fór í loftköstum út í á en hélst á hjólunum. Sú sem ók hafði fengið ökuskírteinið sitt í apríl og ekki ekið mikið síðan. Kvaðst hún hafa fylgt leiðbeiningum frá „Google maps“ en samt endað út í ánni. Meðfylgjandi mynd tók Alfons Finnsson fréttaritari Skessuhorns skömmu eftir óhappið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir