Hressir krakkar í Grunnskóla Borgarfjarðar á Hvanneyri, en skólinn er meðal þeirra sem hlutu styrki að þessu sinni. Ljósm. borgarbyggd.is

Fjórtán skólar fá styrki til að efla forritunarþekkingu

Úthlutað hefur verið styrkjum úr sjóðnum „Forritarar framtíðarinnar“ fyrir árið 2016. Sjóðnum bárust um 30 umsóknir í þessari úthlutun, flestar frá grunnskólum. Virði styrkjanna er samtals tæplega tólf milljónir króna, en þeir eru í formi tölvubúnaðar og þjálfunar kennara til forritunarkennslu fyrir nemendur. Að þessu sinni fengu fjórtán grunnskólar úthlutað og eru þrír þeirra á Vesturlandi; þ.e. Auðarskóli, Grunnskóli Borgarfjarðar og Heiðarskóli.

Í skýrslu evrópska skólanetsins (European Schoolnet) frá því í október 2014 kemur fram að forritun er í auknu mæli að verða lykilfærni sem allir krakkar ættu að tileinka sér á einn eða annan hátt. Auk þess er færnin mikilvæg á vinnumarkaði í hinum ýmsu greinum. Forritun er þar skilgreind sem rökhugsun sem er orðin ein af lykilfærni tuttugustu og fyrstu aldarinnar. Í skýrslunni kemur einnig fram að kennarar hafi almennt ekki verið nægilega vel undirbúnir fyrir að forritun sé sett á námskrá.

Í þessari úthlutun munu á annað hundrað kennarar í þessum fjórtán skólum fá þjálfun til að kenna forritun og verða 100 tölvur afhentar. „Þjálfun kennara skiptir miklu máli því þar styður sjóðurinn einna best við innviðina í skólunum þar sem hún ýtir undir áhuga á forritunar- og tæknimenntun innan skólanna auk þess að auka og byggja upp þekkingu. Þörf fyrir góðar tölvur er mikil í skólakerfinu en ekki er óalgengt að skólar landsins notist við átta ára og jafnvel þaðan af eldri vélar í kennslu, vélar sem segja má að séu orðnar úreldar,“ segir í frétt frá sjóðnum. Þess ber einnig að geta að skólarnir sem fá styrk skuldbinda sig til þess að setja forritun á námsskrá í að minnsta kosti tvö ár. Þessi skuldbinding tryggir að jafnt stúlkur og drengir fái kennslu í forritun sem vonandi skilar sér til lengri tíma í fjölgun kvenna í tæknigeiranum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir