Stúdentar vilja að lokið verði við lagasetningu um námslán og styrki

Forsvarmenn stúdentafélaga við HÍ, HA, HR og Tækniskólann hafa sent frá sér ályktun þar sem skorað er á þingmenn stjórnarflokkanna jafnt sem stjórnarandstöðunnar að klára frumvarp um námslán og námsstyrki á þessu þingi.  „Stúdentar munu ekki una því að bíða til næsta kjörtímabils eftir endurbótum á námsaðstoðarkerfinu. Ekki er hægt að horfa fram hjá því að þetta frumvarp er risastórt skref í átt að því námsaðstoðarkerfi sem við viljum sjá á Íslandi í framtíðinni, en það hefur í för með sér þau atriði sem stúdentar hafa lengi barist fyrir, til að mynda fyrirframgreiðslur, beina námsstyrki og 100% framfærslu. Við erum sammála um að þær breytingar sem allsherjar- og menntamálanefnd leggur til að gerðar verði á frumvarpinu eru jákvæðar og að frumvarpið sé í heild sinni gífurleg kjarabót fyrir stúdenta.

Að þessu sögðu skorum við á stjórnarandstöðuna að leggja kosningaslaginn til hliðar og hlusta á stúdenta, sem eru langþreyttir á því að vera notaðir í pólitískum leikjum á milli stjórnmálaflokka. Við krefjumst þess að málið fari á dagskrá og verði tekið fyrir í 2. umræðu sem allra fyrst,“ segi í ályktun stúdentafélaganna sem bæta við: „Jafnframt krefjumst við þess að lögð verði fram og samþykkt þingsályktunartillaga um að haldið verði áfram að vinna að málefnum Lánasjóðs íslenskra námsmanna á næsta kjörtímabili og að stúdentar verði hafðir með í ráðum.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir