Thors saga Jensen frumsýnd á Söguloftinu

Gestir streymdu að Landnámssetri Íslands í Borgarnesi rétt fyrir átta síðastliðið föstudagskvöld til að njóta nýrrar sýningar á Söguloftinu. Þar sagði Guðmundur Andri Thorsson frá langafa sínum og langömmu, Thor Jensen og Margréti Þorbjörgu Kristjánsdóttur. Þau hjón voru búsett í Borgarnesi í nærfellt áratug frá árinu 1886 og starfaði Thor sem faktor þann tíma. Í pakkhúsinu sem hann lét byggja árið 1889 er nú einmitt Söguloftið til húsa. Ennfremur bjó fjölskyldan í Kaupangi sem er næsta hús við Landnámssetur í dag og er jafnframt elsta húsið í Borgarnesi (byggt 1878). Þar voru fjögur af börnum hjónanna fædd. Sterk staðartenging sýningarinnar er því fyrir hendi.

Saga Thors og Margrétar var hluti af sögu landsins á miklum breytingatímum enda Thor mikill athafnamaður og afkomendur hans ekki síður. Það var því víða farið í frásögn Guðmundar Andra og áheyrendur fylgdust með af athygli og klöppuðu honum lof í lófa að verkinu loknu. Sýningin er að mestu án leikmuna, en þó átti gamalt ófullgert málverk talsverðan þátt í að gefa nærveru aðalpersónunnar til kynna. Fram kom í máli Guðmundar Andra að sýningin væri komin til vegna beiðni Kjartans Ragnarssonar um að hann setti á svið verk sem hann ætti í raun eftir að skrifa í bókarformi. Sjálfur kvaðst hann oft hafa verið spurður að því hvenær hann myndi rita sögu Thors Jensen og Thorsaranna, en það hefði hann ekki í hyggju, alla vega ekki að sinni. Hins vegar væri hægt að hugsa sér að nálgun hans í frásögninni í Landnámssetri gæti falið í sér mögulegar leiðir að slíku verki – en tíminn yrði að leiða í ljós hvort það yrði einhvern tímann skrifað.

Fjölmörg verk hafa verið flutt á Sögulofti Landnámsseturs síðan fyritækið hóf starfsemi árið 2006 og öll hafa þau einkennst af áherslu á frásagnarlist og sagnamenningu. Upplýsingar um næstu sýningar Thors sögu Jensen má finna á www.landnam.is.

-gj

Líkar þetta

Fleiri fréttir