Sr. Sveinbjörn Bjarnason í Birtu og fyrrum sóknarprestur á Þórshöfn. Ljósm. Jóhannes Long.

Samtökin Birta halda fund á Akranesi

Samtökin Birta munu halda fund í Safnaðarheimilinu Vinaminni á Akranesi mánudaginn 10. október næstkomandi klukkan 20. Birta eru landssamtök foreldra og/eða forráðamanna sem misst hafa börn eða ungmenni skyndilega. Samtökin voru stofnuð 7. desember 2012. Tilgangur og markmið samtakanna er að standa fyrir fræðslu og ýmsum viðburðum á landsvísu, til sjálfsstyrkingar fyrir syrgjandi foreldra og fjölskyldur þeirra og að standa fyrir árlegum hvíldardögum fyrir foreldra og forráðamenn með uppbyggjandi fræðslu og endurnærandi hvíld að leiðarljósi. Hafa samtökin boðið félagsfólki að gista á hóteli eða gistihúsi eina helgi sem lið í uppbyggingu eftir erfið áföll, hvort sem langt eða stutt er liðið frá áfallinu. Nokkrir hafa þegið þetta boð nú þegar og líst ánægju sinni en dvölin er þeim sem njóta að kostnaðarlausu. Þá hafa samtökin einnig staðið fyrir opnum húsum, þar sem einhver sérfróður á hinum ýmsu sviðum sálgæslu og félagsmála kemur og flytur stutt erindi. Félagar sitja svo yfir kaffibolla og ræða saman og leitast við að veita hvert öðru stuðning. Þá hafa nokkrir einstaklingar komið saman nokkur kvöld í svokölluðum stuðningshópi þar sem einn leiðir hópinn til samræðna, frásagna af því hvað gerðist og umræðna til styrktar hverju öðru.

 

Margir sem hafa misst ungt fólk

Fundurinn sem haldinn verður á Akranesi er kynningarfundur á Samtökunum og fyrir honum fer sr. Sveinbjörn Bjarnason stjórnarmaður í Birtu og fyrrum sóknarprestur á Þórshöfn. „Markmiðið er meðal annars að fá þarna einstaklinga sem gætu orðið nokkurs konar tengiliðir, annars vegar við Birtu og hins vegar við foreldra og aðstandendur sem misst hafa ungmenni, að þeir geti leitað til einhvers á staðnum og átt samtal. Við erum svo alltaf reiðubúin að koma inn í með okkar reynslu. Þetta er svona í stuttu máli það sem við viljum gera, að á Akranesi verði til nokkurs konar deild úr Birtu,“ segir Sveinbjörn í samtali við Skessuhorn. Hann segir að staðreyndin sé sú að því miður séu allt of margir sem glímt hafi við missi ungs fólks. „Þegar við stofnuðum samtökin á sínum tíma, þá þremur vikum fyrir jól, þá datt okkur ekki í hug að margir myndu mæta. En það voru 110 manns sem mættu á þennan stofnfund. Þar á meðal einstaklingar sem komnir voru á góðan aldur en höfðu misst barn á sínum yngri árum en aldrei byrjað úrvinnslu,“ segir hann. Hann segist í nokkrum tilvikum hafa farið heim til fólks eftir missi og eins hafi fólk komið á opin hús samtakanna. Þar hafi fólk lýst ánægju sinni með samtökin. „Margir hafa sagt okkur að samtökin hafi bjargað þeim. Að þarna hafi það hitt fólk sem hafði misst börn en samt staðið enn uppi. Fólk sem gat meira að segja hlegið. Fólk segir það hafa bjargað lífi sínu að sjá annað fólk sem hefur verið í sömu sporum.“

 

Byggja samtökin upp

Samtökin eru að ná fjögurra ára aldri og segir Sveinbjörn að sá tími hafi verið nýttur í að byggja samtökin upp. „Bæði að byggja okkur sjálf upp, því allt var þetta nýtt fyrir okkur, og að læra svolítið á hvernig við ættum að gera þessa hluti.“ Birta eru landssamtök og vilja því leitast við að fara sem víðast um landið. „Einn stjórnarmaður okkar býr á Siglufirði og er að gera alveg stórkostlega hluti þar, bæði á Siglufirði og á Akureyri. Við höfum leitast við að setja okkur í samband við presta, því við vitum að margir leita þangað. Sumir vilja ekki leita þangað og það er alveg í lagi. En það er þá til einhver annar aðili sem er tengiliður við Birtu, ef fólk vill ræða við okkur. Við viljum gera allt sem við getum gert til að létta fólki þessa göngu og ég er meira en tilbúinn til að koma á Akranes með spjallfundi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir