Nýtt markaðstorg fyrir lambakjöt verður opnað á hádegi

Kjötborðið, nýtt markaðstorg á netinu fyrir íslenskt lambakjöt, verður opnað á hádegi í dag, fimmtudaginn 29. september, á slóðinni www.kjotbordid.is  Þar selja bændur vöru sína beint til neytenda og geta verðlagt hana eftir eðli og gæðum. Sauðfjárbændur sem vilja selja kjöt í gegnum Kjötborðið gera það með því að stofna aðgang og skrá viðeigandi upplýsingar.
Neytendur geta síðan keypt kjöt með því að skrá sig inn á síðuna og senda bændum fyrirspurn um þá vöru sem falast er eftir. Þannig getur fólk keypt kjöt af nýslátruðu eða frosið, beint frá bónda og fengið sent heim. Sendingarkostnaður er innifalinn í verðinu sem kaupandi greiðir nema annað sé tekið fram. Bændum er greitt vikulega út, á föstudögum fyrir sölu síðustu sjö daga. Þóknun Kjötborðsins er 15% af söluverði.

Að Kjötborðinu standa Vignir Már Lýðsson, Þorgeir Þorgeirsson og Valur Þráinsson. „Við sáum í haust hvernig viðbrögðin voru þegar afurðarstöðvarnar lækkuðu verðið til bænda. Þá fóru margir bændur að bjóða kjöt sitt til sölu á netinu. Það sem gerðist þá var að það var hver í sínu horni að selja kjöt. Við sáum tækifæri í að stofna sameiginlegan vettvang sem bæði myndi auðvelda neytandanum að finna kjöt sem þetta, því það er mikil eftirspurn eftir kjöti beint frá bónda, og auðvelda bændum að koma kjöti til neytenda,“ segir Vignir í samtali við Skessuhorn.

Nýtt markaðstorg fyrir lambakjöt verður opnað á hádegi_1NOTA.jpg

Líkar þetta

Fleiri fréttir