Lunddælskar kindur fá ærlegt hlutverk

„Sauðamessunefndinni hefur borist þau frábæru tíðindi að frægasti liður Sauðamessu verður ekki tekinn af dagskrá,“ segir í tilkynningu frá þeim Hlédísi Sveinsdóttur og Rúnari Gíslasyni sem eru í forsvari fyrir Sauðamessu í Borgarnesi næsta laugardag. „Það hefur reynst erfitt að fá kindur í ár vegna anna hjá bændum, en um næstu helgi verða flestir sem vettlingi geta valdið í seinni leitum og því vorum við ekki að auglýsa það í ár að fjárrekstur stæði til. Við vorum hinsvegar bænheyrð í dag og lunddælskir bændur munu sjá okkur fyrir rolluhópi með glæsilegan forystusauð í broddi fylkingar.“

Til stendur að hefja Sauðamessu með fjárrekstri af planinu fyrir utan Dvalarheimilið Brákarhlíð þar sem heimilisfólk tekur á móti gestum og gangandi undir harmonikkutónlist. Réttarstjóri Sauðamessu stýrir síðan fjárrekstri niður í Skallagrímsgarð þar sem hátíðardagskrá hefst með predikun séra Elínborgar Sturludóttur, enda við hæfi að prestur opni messuna. Það verður nóg um að vera, líkt og áður hefur komið fram: Heimafólk stígur á stokk, keppt verður í lærakappáti að venju og í sveitakeppni og þá munu Sveppi og Villi mæta og trylla unga sem aldna. Veitt verða verðlaun fyrir fallegustu lopapeysuna og frumlegustu lopaflíkina, Bifhjólasamtökin Raftarnir sjá um gefins kjötsúpu að venju, frí andlitsmálning, Sauðamarkaðir verður um allan garð, vöfflusala og Geir víkingur segir börnum sögur.

Hátíðinni verður síðan slúttað með alvöru sveitaballi í Hjálmakletti með sveitamönnum úr hljómsveitinni Blandi. Bar verður á staðnum þar sem verður boðið upp á það allra nauðsynlegasta; lifrarpylsu, slátur, sviðasultu og mjólk.

Líkar þetta

Fleiri fréttir