Búið er að reisa hluta eininga í kjallara húsanna. Hér er horft í norður yfir framkvæmdasvæðið við Borgarbraut 57. Ljósm. Þorleifur Geirsson.

Halda áfram með byggingu hótelhlutans í miðbæ Borgarness

Eins og fram kom í frétt Skessuhorns í byrjun vikunnar felldi Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál úr gildi breytingu Borgarbyggðar á deiliskipulagi fyrir Borgarbraut 57-59 í Borgarnesi. Er deiliskipulagið ekki talið samrýmast gildandi aðalskipulagi. Jarðvegsframkvæmdir og sökkulvinna var þá byrjuð á svæðinu þar sem reisa átti hótel, þjónusturými og íbúðablokk fyrir eldri borgara. Þegar úrskurðurinn lá fyrir föstudaginn 23. september voru framkvæmdir stöðvaðar á meðan menn færu yfir áhrif hans. Þegar breytt deiliskipulag er fellt úr gildi tekur það eldra þegar við. Samkvæmt því var gert ráð fyrir allt að sex hæða byggingu á lóðinni Borgarbraut 59, eða einni hæð meira en til stóð að byggja samkvæmt því skipulagi sem nú hefur verið dæmt ólögmætt. Þar sem byggingarleyfi var ekki fellt úr gildi halda því framkvæmdir áfram við Borgarbraut 59 og verður hótel reist á lóðinni.

„Við munum halda áfram með hótelbygginguna á Borgarbraut 59 og það er engan bilbug á okkur að finna. Teikningum hefur nú þegar verið breytt og íbúðablokk á Borgarbraut 57 og þjónusturými á jarðhæð verið fellt út. Lokið verður við frágagn á þeim einingum sem nú er búið að reisa í grunninum og þær tryggðar gagnvart veðri og vindum. Þessar teikningar með breytingum bíða nú formlegrar afgreiðslu byggingafulltrúa. Nú vinnum við samkvæmt því skipulagi sem samþykkt var fyrir um áratug síðan og byggir á hugmyndum sem Borgarland og Kaupfélag Borgirðinga höfðu þá um byggingar á lóðunum,“ segir Jóhannes Freyr Stefánsson framkvæmdastjóri SÓ húsbygginga í samtali við Skessuhorn. „Í húsinu á lóðinni Borgarbraut 59 verða bílastæði og geymslur í kjallara. Þjónusturými sem vera átti á jarðhæð fellur út og 85 herbergja hótel kemur á hæðunum þar fyrir ofan. Hugsanlega verður sjöttu hæðinni nú bætt við enda heimilar núgildandi skipulag slíkt. Nú stefnum við ótrauðir á að ljúka við hótelbygginguna og taka nýtt hótel í notkun næsta sumar,“ segir Jóhannes Freyr.

Guðsteinn Einarsson kaupfélagsstjóri og framkvæmdastjóri Borgarlands vill koma því að varðandi málið að Borgarland féll á sínum tíma frá áformum um byggingu háreists húss á lóðinni Borgarbraut 59, vegna andstöðu íbúanna við þau áform. „Munurinn á okkur og þeim sem nú ætla að byggja, er sá að nú á að ryðjast áfram með verk sem er í mikilli andstöðu við vilja íbúa og nágranna byggingareitsins, en við hjá Borgarlandi tókum einmitt tillit til athugasemda þeirra á sínum tíma og hættum við verkið,“ sagði Guðsteinn.

Hjónin Snorri Hjaltason og Brynhildur Sigursteinsdóttir munu eiga hótelið sem nú er byrjað að byggja og hafa þau þegar ráðið í starf hótelstjóra Garðar Gunnlaugsson knattspyrnumann frá Akranesi sem jafnframt er sérmenntaður í hótelrekstri.

Líkar þetta

Fleiri fréttir