Jóhann Oddsson, bóndi á Steinum II. Ljósm. kgk.

Oftar en flestir aðrir í fjárleitir

Jóhann Oddsson er bóndi á Steinum II í Stafholtstungum. Hann er kvæntur Valgerði Björnsdóttur og saman áttu þau fjögur börn. Jóhann er fæddur á Steinum en þau hjón hafa alla sína búskapartíð búið þar, en hún er frá Deildartungu í Reykholtsdal. Á Steinum II er sauðfjárbú með rúmlega 500 fjár. Auk þess hafa þau nokkuð af hestum, nokkrar hænur og tvo hunda. Eins og kunnugt er fara bændur í leitir að hausti og sækja fé af fjalli til að setja á eða slátra. Jóhann er reyndari en margur hver þegar kemur að leitum, búinn að fara á fjall óslitið í 56 ár. „Ég fór fyrst í leitir fermingarárið mitt 1960. Þá fór ég í fyrstu leit en hef farið í fyrstu, aðra og þriðju leit allar götur síðan,“ segir Jóhann Oddsson, bóndi á Steinum ll í Stafholtstungum, í samtali við Skessuhorn. Reiknast okkur þannig til að Jóhann hafi farið 156 sinnum í leit sem hlýtur að vera atlaga að Íslandsmeti og jafnvel heimsmeti. Þá eru ótaldar allar eftirleitir og heimasmalamennskur. „Ég veit nú ekki hvort þetta er eitthvað met,“ segir Jóhann hæverskur. „En ég hef þó farið oftast af þeim sem leita hér um slóðir,“ bætir hann við.

Alla tíð hefur Jóhann leitað sama svæðið, Holtavörðuheiðina og Snjófjöllin, og rekið fé til réttar í Þverárrétt, fjárflestu rétt landsins. „Samkvæmt fjallskilaseðli eru um tíu þúsund ær sem fara á fjall að vori. Ef við gerum ráð fyrir því að 65% sé tvílembt, sem er ekki ofáætlað, þá eru það rúmlega 26 þúsund ær og lömb. Það skilar sér auðvitað ekki allt til réttar í fyrstu leit. En ég held að það megi slá því föstu að 20 þúsund fjár sé rekið til réttar í fyrstu leit á hverju hausti, varlega áætlað,“ segir Jóhann. En féð kemur vitaskuld ekki allt frá bæjum í Stafholtstungum.

Sjá nánar viðtal í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir