Skjáskot af nýrri heimasíðu Stykkishólmsbæjar.

Stykkishólmsbær hefur tekið nýja heimasíðu í notkun

Um nokkurt skeið hefur verið unnið að uppsetningu nýrrar heimasíðu fyrir sveitarfélagið Stykkishólmsbæ. Hefur það verkefni verið í höndum Hermanns Hermannssonar, ritara bæjarstjóra, með faglegri ráðgjöf Önnu Melsteð hjá Anok margmiðlun ehf. Endurgerð hýsing vefsins www.stykkisholmur.is var unnin af hugbúnaðarfyrirtækinu Advania, sem átti hagstæðasta tilboðið í þann hluta verkefnisins. Þetta kemur fram í tilkynningu Sturlu Böðvarssonar bæjarstjóra sem birt var á nýrri heimasíðu Stykkishólmsbæjar.

„Um er að ræða umfangsmikla breytingu á heimasíðunni sem miðast við að veita sem bestar upplýsingar um stofnanir og stjórnsýsluna ásamt með því að bjóða upp á nýja þjónustu við bæjarbúa með svokallaðri íbúagátt  þar sem hægt verður að nálgast upplýsingar um viðskipti íbúa við bæjarsjóð sem og að leita að upplýsinga um alla þætti í rekstri bæjarsjóðs og stofnana og sækja á rafrænan hátt um þá þjónustu sem í boði er,“ segir Sturla á heimasíðu bæjarins. Breytingarnar miða að því að bæta samskipti og auðvelda íbúum Stykkishólms og starfsmönnum bæjarins rafræn viðskipti, sem stöðugt færast í vöxt.

„Um leið og starfsmönnum Nepal í Borgarnesi eru þökkuð góð samskipti og dygg þjónusta er fyrirtækið ADVANIA boðið velkomið til verka og þess vænst að það leiði okkur inn í þá veröld sem ný heimasíða skapar okkur,“ segir í tilkynningu bæjarstjóra.

Líkar þetta

Fleiri fréttir