Á fremsta bekk á fyrsta kennsludegi í nýju lögreglunámi á Akureyri mátti sjá kunnugleg vestlensk andlit. Frá vinstri er Hafþór Ingi Þorgrímsson sem rekur dekkjaverkstæði í Stykkishólmi, þá Björgvin Fjeldsted frá Ferjukoti, unnusta hans Guðrún Hildur Hauksdóttir úr Borgarnesi og Ásgeir Yngvi Ásgeirsson frá Staðarhúsum. Ljósm. ha.is

Hófu nám í lögreglufræði við HA

Í byrjun síðustu viku hófst kennsla í lögreglufræði í fyrsta skipti við Háskólann á Akureyri. Nám þetta bar brátt að því einungis fyrir tæpum þremur vikum ákvað Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra að fela HA að taka að sér lögreglufræði á háskólastigi. Fjórir háskólar hér á landi kepptust um hituna. Nú hefja liðlega 150 nemendur nám og koma þeir víða af landinu. Meðal þeirra eru a.m.k. fimm Vestlendingar, en fjórir þeirra sitja hér einmitt saman á mynd á fyrsta skóladegi síðastliðinn mánudag. Þetta eru þau Hafþór Ingi Þorgrímsson, Björgvin Fjeldsted, Guðrún Hildur Hauksdóttir og Ásgeir Yngvi Ásgeirsson. Þeir þrír hafa allir starfað hjá Lögreglunni á Vesturlandi og mæta því hoknir af reynslu til háskólanámsins norðan heiða.

Ásgeir Yngvi Ásgeirsson, einn Vestlendinganna segist sjálfur ætla að taka námið af fullum krafti, 30 einingar á önn og mun því ef allt gengur eftir útskrifast eftir tvö ár. Þau völdu öll að nálgast fræðin í fjarnámi sem byggist á nokkrum staðlotum á Akureyri og síðan heimanámi og verkefnaskilum á netinu. „Þetta leggst alveg rosalega vel í mig að byrja í námi. Maður er orðinn þrítugur og þá lítur maður einhvern veginn á nám af meiri alvöru en þegar maður var yngri,“ segir Ásgeir Yngvi. Hann er menntaður húsasmiður en rekur ferðaþjónustu heima á Staðarhúsum í Borgarhreppi.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir