„Þurfum að endurskoða frá grunni verðlagningu og sölu dilkakjöts“

Allir helstu sláturleyfishafar landsins hafa nú gefið út verðskrár sínar fyrir haustslátrun sauðfjár og lækka allir verð frá síðustu sláturtíð. Ástæður sem fyrirtækin gefa fyrir lækkuðu afurðaverði eru einkum sagðar óhagstæðar aðstæður í útflutningi kjöts; krónan hafi styrkst, lækkun hafi orðið á mörkuðum og hrun á hliðarafurðamörkuðum, svo sem gærum.

Afar þungt hljóð er í sauðfjárbændum vegna þessarar ákvörðunar sláturleyfishafa, sem boða lækkað verð eftir að sláturíð er hafin. Þóra Sif Kópsdóttir er sauðfjárbóndi á Ystu-Görðum og formaður Félags sauðfjárbænda á Snæfellsnesi. Hún gekk svo langt að flagga íslenska fánanum í hálfa stöng á laugardaginn eftir að Kaupfélag Skagfirðinga hafði birt verðskrá sína. Í samtali við Skessuhorn sagði hún að sér virtist sem afurðastöðvum væri sama um kjör bænda, létu eins og þeim kæmi afkoma þeirra ekki við. „Kaupliður okkar af vinnu við búin er horfinn. Ég veit um bændur sem hugleiða að bregða búi í haust af þessum ástæðum. Flestir bíða þó með að grípa til slíks örþrifaráðs í ljósi þess að þeir eiga mikil og góð hey og búnir að leggja út fyrir kostnaði til næsta árs.“ Aðspurð um hvað hún sjái helst í þröngri stöðu bænda, segir Þóra Sif að einkum þurfi afurðastöðvarnar að girða sig í brók og hækka útsöluverð á kjöti til viðskiptavina sinna. „Það liggur beinast við að verðið er of lágt og það er í raun óskiljanlegur þessi ótti við að hækka kjötverð í takt við verðþróun í landinu. Allir eru sammála um að bændur eru að framleiða úrvals kjöt sem viðurkennt er sem þjóðarréttur Íslendinga. Það vantar bara rétta verðmiðann á þessa úrvalsvöru og ákvörðun um hækkun hlýtur að liggja hjá sláturleyfishöfum og afurðastöðvum. Nú seilast afurðastöðvarnar hins vegar í vasa okkar bænda og því er ég algjörlega mótfallin. Við bændur verðum því að standa í lappirnar og endurskoða frá grunni verðlagningu og markaðsmál framleiðslu okkar,“ sagði Þóra Sif Kópsdóttir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir