Árný Guðmundsdóttir heldur utan um flöskusjóðinn. Hér er hún við sjónvarpið nýja. Ljósm. Dvalarheimilið í Stykkishólmi.

Sjónvarp keypt fyrir flöskusjóðinn

Nýverið var nýtt sjónvarp sett upp í matsalnum á Dvalarheimili í Stykkishólmi. Sjónvarpið var keypt fyrir peninga sem komu úr flöskusjóði dvalarheimilisins. Það er Árný Margrét Guðmundsdóttir, fyrrum starfsmaður á dvalarheimilinu, sem heldur utan um sjóðinn og hefur gert til margra ára eða allt frá því sjóðurinn var stofnaður árið 1991. Árný starfaði á dvalarheimilinu í 30 ár en hún hætti árið 2013, þegar hún náði sjötugsaldri. „Ég hélt utan um þetta á meðan ég vann þarna og hef haldið því áfram,“ segir Árný.

Hún segir Stykkishólmsbúa duglega að styrkja sjóðinn. „Það eru auðvitað kassar uppfrá sem allir setja í en svo eru bæjarbúar að setja þetta á tröppurnar hjá mér. Það koma alltaf flöskur, bæjarbúar hafa verið svo duglegir og þeir eiga þakkir skildar fyrir það,“ segir hún. Aðspurð um hvort sjóðurinn hafi nýst vel til innkaupa segir hún: „Ætli það séu ekki að verða tæp 300 þúsund sem ég er búin að kaupa fyrir. Þar má nefna tvo nuddstóla, spegil, tvö börð, dagatal úr tré og núna þetta sjónvarp í matsalinn. Það er búið að kaupa ýmislegt, ég man það ekki allt saman. Við reynum að kaupa það sem vantar og það vantaði sjónvarp núna,“ segir Árný kát að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir