Dregið hefur úr þörf fyrir menntað vinnuafl

Tæplega fimmtungur fyrirtækja á Vesturlandi hefur þörf fyrir starfsfólk með ákveðna menntun samkvæmt niðurstöðum spurningakönnunar sem gerð var í 250 fyrirtækjum á Vesturlandi í desember 2015. Þörf fyrir menntað vinnuafl í þessum fyrirtækjum hafði dregist umtalsvert saman frá sambærilegri könnun sem gerð var árið 2014. „Þrátt fyrir að dregið hafi úr þörfinni á menntuðu vinnuafli á milli ára má engu að síður draga þá ályktun að enn sé töluverð þörf til staðar,“ segir Vífill Karlsson hagfræðingur hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi sem vann könnunina. Vífill segir að þörfin fyrir menntað starfsfólk sé mest á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit, þegar horft er til einstakra svæða á Vesturlandi, en svipað sé þó uppi á teningnum í Borgarfirði. „Í Dölunum var þörfin lítið eitt minni en í Borgarfirði en nærri helmingi minni á Snæfellsnesi. Heilt yfir vantaði helst starfsfólk með iðn- og tæknimenntun eins og í könnuninni sem gerð var 2014. Þörfin fyrir þá menntun hafði þó dregist töluvert saman á milli áranna,“ segir Vífill. Þetta er meðal niðurstaðna fyrirtækjakönnunar en frekari greining er að finna í nýrri Glefsu, fréttabréfi SSV.

Líkar þetta

Fleiri fréttir