Jón Þór stendur hér við hið gamla og sögufræga einbýlishús á Hvítanesi. Til vinstri sést í hluta af nýja fjósinu. Ljósm. kgk.

Telur að ná megi betri árangri í nautakjötsframleiðslu

Nýverið var tekið í notkun nýtt nautaeldisfjós í Hvítanesi í Hvalfjarðarsveit. Af því tilefni var opið hús á Hvalfjarðardögum. Skessuhorn ræddi við Jón Þór Marinósson, bónda í Hvítanesi, um byggingu fjóssins og fleira. Hann var að vonum ánægður og sagði að framkvæmdir hefðu gengið afskaplega vel. „Þetta gekk eiginlega bara lyginni líkast. Fyrsta skóflustungan var tekin 18. desember í fyrra. Skömmu síðar voru menn frá Smellinn mættir að steypa og voru að mestu búnir eftir áramót. Reyndar tafðist verkið aðeins vegna frosts í jörðu. Við ætluðum að vera búin að steypa plötuna í febrúar en það var ekki hægt fyrr en í mars vegna frosts,“ segir Jón Þór. „En engu að síður gekk þetta vel. Menn frá Landstólpa voru mættir fyrstu vikuna í apríl og húsið var risið kringum 20. apríl,“ bætir hann við.

En bygging nýja eldisfjóssins í Hvítanesi á sér forsögu. Eins og Skessuhorn greindi frá á síðasta ári þá eyðilagðist gamla fjósið og sambyggð hlaða í Hvítanesi í óveðri í mars 2015. Þakið fauk af húsunum svo aðeins steypuveggirnir stóðu eftir. Mikil mildi var að enginn slasaðist þegar óveðrið gekk yfir því feðgarnir í Hvítanesi voru á leið til gegninga þegar öflug vindhviða reið yfir og eyðilagði húsin. „Eftir að það fauk hjá okkur þá var annað hvort að byggja eða hætta. Ég og foreldrar mínir, Marinó Tryggvason og Margrét Magnúsdóttir, vorum ekki tilbúin að gefast upp og ákváðum að byggja nýtt fjós,“ Jón Þór. „Ég hafði vissulega velt fjósbyggingu fyrir mér áður en ekkert gert í því og var ekkert byrjaður að vinna í að fjármagna slíkt. En tryggingaféð sem við fengum fyrir gamla fjósið veitti okkur hins vegar ákveðið svigrúm til að byggja nýtt,“ bætir hann við.

Sjá nánar viðtal við Jón Þór í síðasta Skessuhorni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir