Skipt um eldsneytistanka við Olís í Stykkishólmi

Þessa dagana standa yfir framkvæmdir við afgreiðslustöð Olís við Aðalgötu í Stykkishólmi. Þegar blaðamaður Skessuhorns var á ferðinni nýverið blasti við beltagrafa á planinu við suðurenda stöðvarinnar. Þar hafði steypt planið verið brotið upp, djúp hola grafin og til hliðar sást að hífður hafði verið upp olíutankur. Þær upplýsingar fengust í afgreiðslu að verið væri að skipta um þrjá olíutanka. Koma ætti fyrir tveimur nýjum 30 þúsund lítra tönkum og einum 10 þúsund lítra. Áætlað er að verkið taki um sex vikur. Ekki er hægt að skipta um alla tankana í einu heldur verður að girða af vinnusvæði, koma nýjum tanki fyrir þar og moka yfir áður en hægt er að skipta um þann næsta til að hægt sé að halda stöðinni í rekstri á meðan framkvæmdum stendur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir