Skólahúsið á Reykhólum þarfnast viðhalds

Á fundi sveitarstjórnar Reykhólahrepps fimmtudaginn 25. ágúst var lögð fram matsskýrsla um ástand húsnæðis Reykhólaskóla. VSÓ ráðgjöf vann skýrsluna fyrir sveitarfélagið á liðnu sumri. Þar er greint frá ástandi húsnæðis Reykhólaskóla að innan og utan auk þess sem matinu fylgir framkvæmdaáætlun til fjögurra ára. Segir í fundargerð að ljóst þyki að byggingin þarfnist mikilla steypu- og þakviðgerða. Í skýrslunni er gert ráð fyrir viðgerðum að upphæð 80-100 milljónir króna, eftir því hvort um er að ræða steypuviðgerðir eða hvort skólinn verði klæddur að utan. Skiptist upphæðin niður á fjögur ár. Matsskýrslunni var vísað til umfjöllunar í mennta- og menningarmálanefnd og til gerðar fjárhagsáætlunar. Þá var sveitarstjóra falið að koma skýrslunni til kynningar í innanríkisráðuneyti og hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna umræðu um þátttöku sjóðsins í viðhaldi húseigna sem fluttust til sveitarfélaga frá ríkinu við tilfærslu grunnskóla landsins á sínum tíma.

Líkar þetta

Fleiri fréttir