Kennir bæði kundalini- og krakkajóga

Mjöll Barkardóttir er jógakennari á Akranesi. Hún starfar auk þess sem leikskólakennari á leikskólanum Akraseli og er ein þriggja útskrifaðra jógakennara í starfshópnum en á Akraseli er jóga notað í daglegu starfi með börnunum. Mjöll lauk nýverið jógakennaranámi frá Andartaki, þar sem hún lærði kundalini jóga og er hún eini þess konar jógakennarinn á Akranesi. Hún segir Skagamenn sækja jógatíma vel og að ýmiss konar jógatímar séu í boði. „Ég er að fara af stað með mitt fyrsta kundalini námskeið í september. Þessi tegund jóga er alveg ný fyrir bæjarbúum á Akranesi,“ segir Mjöll. Hún segir kundalini jóga vera fljótvirka leið til að ná tökum á streitu með því að styrkja innkirtla og taugakerfið. „Kundalini jóga eins og kennt er eftir forskrift Yogi Bhajan, er sniðið að nútíma fjölskyldufólki og er frábært verkfæri í lífinu til að styrkja líkama og sál. Í kundalini jóga er lögð áhersla á að styrkja taugakerfið, innri líkamsstarfsemi og sálina. Með hugleiðslu, möntrusöng og handastöðum er líkamanum hjálpað að komast í jafnvægi og losað um stíflur í orkustöðvunum. Í hatha jóga er meiri einbeiting á líkamann, „asanas“ eða jógastöður. Þar er slökun en ekki farið eins djúpt í hugleiðsluástand og í kundalini jóga,“ útskýrir hún.

Nánar í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir