Hentar honum ekki að skoða hjartveika Chihuahua-hunda alla daga

Daníel Haraldsson útskrifaðist sem dýralæknir frá Kaupmannahafnarháskóla árið 2015 og sneri heim til Íslands síðasta vor eftir 15 ára dvöl erlendis, lengst af í Danmörku en einnig í Svíþjóð. Hann tók nýverið til starfa í Stykkishólmi og mun vera þar til eins árs að minnsta kosti, eða þar til Hjalti Viðarsson snýr aftur. „Hjalti vildi prófa að búa erlendis og réði mig í vinnu til að leysa sig af í eitt ár til að byrja með. Ég vinn á stofunni hans og bý í húsinu hans. Hjalti býr raunar mjög skammt frá þeim stað þar sem ég bjó úti í Svíþjóð. Þá má segja að við höfum bara hrókerað,“ segir Daníel í samtali við Skessuhorn. „Það eru bara tveir mánuðir síðan ég flutti í Hólminn, nánast upp á dag. Ég var reyndar aðeins á dýralækningastofu í Garðabæ fyrst eftir að ég kom heim en ég fann strax að ég vildi frekar komast út á land. Það er ekkert vit í því að vera inni á stofunni í hvítum sloppi að skoða hjartveika Chihuahua-hunda alla daga. Það hentar mér bara ekki,“ segir hann hæstánægður að vera kominn út á land. „Þetta er mjög skemmtilegt. Hér kemst maður í gott samband við fólk, spennandi fólk. Það er svo mikill drifkraftur í hestamönnum og bændum. Það er gaman að vera í kringum þá og maður er velkominn hvar sem maður kemur,“ segir Daníel.

Sjá skemmtilegt viðtal við Daníel dýralækni í Skessuhorni vikunnar sem kom út í dag.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir