Halldór hættir sem formaður Landssambands smábátaeigenda

Á fundi stjórnar Landssambands smábátaeigenda, sem haldinn var 19. ágúst síðastliðinn, tilkynnti Halldór Ármannsson formaður að hann myndi ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Frá þessu er greint á vef sambandsins. Halldór hefur verið formaður Landsambands smábátaeigenda undanfarin þrjú ár. Hann sagði á fundinum að sér hefði verið heiður sýndur að fá að starfa fyrir smábátaeigendur á efsta stigi. Hann hefði á formannstíð sinni kynnst hlutum í starfinu sem hann hefði ekki órað fyrir að væru afgreiddir á þann hátt sem gert væri. Nefndi hann sérstaklega fundi hagsmunaaðila hjá Hafrannsóknastofnun þar sem stofnunin kynnir tillögur til stjórnvalda um hámarksafla. Þar hafi hver hagsmunaðilinn af öðrum kinkað kolli til samþykkis. Steininn hafi síðan tekið úr í júní síðastliðnum þegar ekki hefði dugað að meirihluti umbjóðenda væri þeirrar skoðunar að sjórinn væri fullur af þorski og teldi því ástæðu til að auka verulega við þorskkvótann. Því hafi honum þótt óskiljanlegt að ekki hafi verið gerðar athugasemdir við 5000 tonna aukningu kvótans. Hann sagði LS standa utan slíkrar meðvirkni og hafa sérstöðu með ábyrgum og vel ígrunduðum tillögum.

Einnig sagði Halldór að vinnubrögð atvinnuveganefndar Alþingis hafi komið sér á óvart. Þar væri pukrast með tillögur til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða þar til samið hefði verið um þinglok. Þá hafi verið kallað með klukkustundar fyrirvara í hagsmunaðila og þeim tilkynnt hvað nefndin hygðist gera. „Í örafgreiðslu þingsins væri svo gumað að víðtæku samráði,“ segir á vef LS.

Halldór kvaðst hins vegar vona að bjartari tímar væru framundan hjá smábátaeigendum. Ójöfnuður væri hins vegar innan sjávarútvegs hvað varðar afkomu útgerðar án vinnslu og hinna. Brýnt væri að snúa þessari þróun við og væru aflaívilnanir og veiðigjöld meðal þeirra aðferða sem hægt væri að beita til þess. Hann telur enn fremur að strandveiðikerfinu megi breyta að því leyti að hætta stöðvun veiðanna á tímabilinu maí til ágúst. Veður, fiskgengd á grunnslóð, róðrartími og hámarskafli væru nægar takmarkanir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir