Útibú Matarbúrs Kaju verður staðsett í kjallara Óðinsgötu 8b í Reykjavík. Ljósm. Matarbúr Kaju.

Útibú Matarbúrs Kaju senn opnað í Reykjavík

Karen Jónsdóttir sem á og rekur lífrænu verslunina Matarbúr Kaju á Akranesi hyggst á næstunni opna útibú verslunarinnar í Reykjavík. „Ég fæ húsnæðið afhent 1. september og stefni að því að opna laugardaginn 10. september,“ segir Karen í samtali við Skessuhorn. Matarbúr Kaju í Reykjavík verður til húsa við Óðinsgötu 8b. Segir Karen að verslunin verði með svipuðu sniði og verslunin á Akranesi þar sem almenn þurrvara, ávextir og grænmeti er selt eftir vigt. „Áherslan er á lífrænt vottuð og umhverfisvæn matvæli sem seld eru eftir vigt. Þó verður enn meiri áhersla lögð á lausasöluna og umbúðalaust í versluninni í Reykjavík þar sem aðstæður bjóða upp á það,“ segir hún. „Svo er hugmyndin að framleiða hrákökutertur hér á Akranesi og selja einnig í Matarbúrinu í Reykjavík,“ bætir hún við.

Aðspurð hvers vegna hún hyggist færa út kvíarnar telur hún að eftirspurn sé eftir lífrænni matvöru á höfuðborgarsvæðinu. „Ég er að breiða út lífræna boðskapinn og tel að markaðurinn sé að leita eftir þessu. Skagamenn hafa tekið svo vel í sína verslun að nú er mál að athuga hvort Reykvíkingar vilja ekki eiga sína líka,“ segir hún og kveðst full eftirvæntingar. „Þetta leggst vel í mig. Ég er búin að ráða verslunarstjóra og verð sjálf með annan fótinn þarna til að byrja með. Svo ráðum við fólk ef þess þarf. Ég er með stóran hnút í maganum af spenningi en hef fulla trú á því að þetta eigi eftir að gera sig,“ segir Karen Jónsdóttir að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.