Kaupfélagið stækkar verslunarhúsið við Egilsholt

Samþykkt var á síðasta fundi stjórnar Kaupfélags Borgfirðinga að ráðast í 240 fermetra stækkun verslunarhúss félagsins við Egilsholt 1 í Borgarnesi. Að sögn Guðsteins Einarssonar kaupfélagsstjóra er ástæðan sú að félagið hefur aukið innflutning á síðustu árum og þarf stærra lagerhúsnæði. Viðbyggingin verður því að stórum hluta fyrir lager og grófvöru en verslunin verður þó stækkuð um sem nemur 80 fm. Ráðgert er að jarðvegsframkvæmdir hefjist fljótlega og er stefnt að því að byggingin verði risin fyrir lok nóvember. Af þessum sökum hefur kaupfélagið ákveðið að fresta árlegri Hausthátíð KB fram á vetur og segir Guðsteinn að vonandi verði hún enn veglegri fyrir vikið, en þó með öðrum brag og sem hentar þeim árstíma. Samið hefur verið við Límtré Vírnet um einingar í viðbygginguna, en húsið var á sínum tíma einnig byggt úr einingum frá fyrirtækinu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir