Fékk póstkort frá Moskvu

Í vor greindi Skessuhorn frá frumlegri áritun sendibréfs sem barst Rebeccu Cathrine Kaad Ostenfeld bónda á Hólum í Hvammssveit í Dölum. Póstáletrunin hefur vakið athygli víða utan landssteinanna en um var að ræða teikningu af Hvammsfirði og merkt inn á hvar móttakandi bréfsins ætti heima, án þess þó að gefa upp sjálft bæjarnafnið. Rebecca segir umfjöllun um áletrunina hafa verið þýdda á ýmis tungumál en sjálf hefur hún rekist á þýðingar á ensku, frönsku og portúgölsku. Nýverið fékk Rebecca svo annað sendibréf með samskonar áletrun og í þetta skiptið var bréfið póstlagt í Moskvu í Rússlandi. Þess má geta að fyrra bréfið hafði verið póstlagt í Reykjavík og því um talsvert lengri leið að fara í þetta skiptið. Það var Rússinn Nikolay Shaplov Kargopolskaga sem tók upp á því að stæla áletrun bréfsins sem hafði verið fjallað um í netheimum og vildi sannreyna hvort slík áletrun myndi skila bréfinu í réttar hendur þótt það þyrfti að fara á milli landa. Allt gekk þetta upp og nú hefur Rebecca sent svarbréf til baka þar sem Nikolay fær það staðfest að hin frumlega áletrun dugði til.

Líkar þetta

Fleiri fréttir