Welcome Apartments kaupir Hraunið í Ólafsvík

Fyrirtækið Welcome Apartments hefur fest kaup á fasteigninni að Grundarbraut 2 í Ólafsvík, þar sem nú er rekinn veitingastaðurinn Hraunið. Þetta staðfestir Stefán Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Welcome Apartments, í samtali við Skessuhorn. „Þetta er fasteign sem hafði verið lengi á sölu og við sáum þarna tækifæri til að fjárfesta. Við keyptum húsnæðið en erum búnir að bjóða núverandi rekstraraðila húsnæðið áfram til leigu,“ segir Stefán. Hann segir því engar breytingar á döfinni á rekstrarfyrirkomulagi staðarins og mun Jón Kristinn Ásmundsson áfram reka Hraunið. Fasteignin að Grundarbraut er ekki fyrsta eign Welcome Apartments á svæðinu heldur á fyrirtækið einnig Hótel Hellissand, Hótel Ólafsvík og verslunina Virkið í Rifi, þar sem nú er rekið gistihús. Stefán segir hótelreksturinn hafa gengið vel það sem af er árinu. „Þetta hefur gengið ofboðslega vel, það hefur allt verið fullt hjá okkur og ég býst við að næsta sumar verði ekki síðra. Við ætlum að hafa opið í vetur enda er ekki hægt að lengja ferðamannatímabilið ef allt er lokað.“ Hann bætir því við að í Ólafsvík verði reyndar einungis opið að hluta til. „Við verðum aðeins með opið í húsinu sem gengur undir nafninu Mafían, því við erum að fara í endurbætur á hótelinu. Það verða þó engar breytingar á húsnæðinu, heldur ætlum við að sinna viðhaldi, mála allt að innan og klæða húsið að utan.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Með sjaldgæfan blóðtappa

Skagamaðurinn Oliver Stefánsson, sonur Stefáns Þórs Þórðarsonar og Magneu Guðlaugsdóttur, og varnarmaður sænska úrvalsdeildarfélagsins Norrköping, verður frá næsta hálfa árið... Lesa meira