Þrír bítast um tvö efstu sæti á lista Samfylkingarinnar

Frestur til að sækjast eftir forystusætum í flokksvali Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi rann út 19. ágúst síðastliðinn. Einungis þrír frambjóðendur gáfu kost á sér en flokksvalið fer fram dagana 8.-10. september næstkomandi. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir alþingismaður og Guðjón Brjánsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands gefa bæði kost á sér í fyrsta sæti listans, en Inga Björk Bjarnadóttir meistaranemi í listfræði sækist eftir 1.-2. sæti. Kjördæmisþing ákvað í júlí að fram færi lokað flokksval og yrði um bindandi kosningu að ræða í fjögur efstu sæti listans og að jafnræði kynja yrði gætt með paralista. Þrátt fyrir þetta ákvað kjörstjórn að einungis yrði kosið um efstu tvö sætin í flokksvalinu, enda ekki hægt að hafa bindandi kosningu um fjögur sæti þegar frambjóðendurnir eru þrír. Þar sem bæði Guðjón og Ólína gefa einungis kost á sér í efsta sæti listans og ekkert annað, verður að telja afar líklegt að Inga Björk Bjarnadóttir muni hljóta annað af tveimur efstu sætum á framboðslista flokksins fyrir alþingiskosningarnar 29. október.

Kosið verður í rafrænni kosningu í flokksvalinu með íslykli, eða rafænum skilríkjum, á heimasíðu Samfylkingarinnar xs.is. Þeir sem eru 67 ára og eldri fá atkvæðaseðil sendan heim sem þeir geta þó einnig nýtt sér eða kosið rafrænt. „Hægt er að óska eftir póstlögðum kjörseðli hjá formanni kjörstjórnar Geir Guðjónssyni samfo.profkjor.nv@gmail.com eða í síma 698-1036. Prófkjörið er opið öllum þeim meðlimum Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi sem eru orðnir 16 ára þann 10. september,“ segir í tilkynningu frá kjörstjórn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir