Smölun félagsmanna í aðdraganda forvals VG

Búið er að póstleggja kjörseðla í forvali Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Norðvesturkjördæmi. Fjöldi skráðra flokksmanna í kjördæminu hefur meira en tvöfaldast á síðustu dögum. Samkvæmt heimildum Skessuhorns eru nú 1.102 íbúar 16 ára og eldri skráðir í flokkinn í NV kjördæmi og geta þeir allir tekið þátt í forvalinu. Hefur þeim fjölgað um 650 á síðustu dögum. Sömu heimildir segja að VG félagið á Vestfjörðum sé nú orðið annað stærsta félag flokksins á landsvísu, á eftir Reykjavík, en starfsemi þess hefur verið fremur lítil síðasta áratuginn. Þar hefur því átt sér stað gríðarmikil smölun félagasmanna á síðustu dögum í aðdraganda forvalsins.

Eins og fram hefur komið í frétt Skessuhorns eru ellefu manns sem gefa kost á sér, fimm konur og sex karlar. Flokkurinn á nú einn þingmann í kjördæminu, Lilju Rafney Magnúsdóttur á Suðureyri við Súgandafjörð. Lilja Rafney er í hópi þeirra sem gefa kost á sér til forystu, en auk hennar sækjast eftir fyrsta sætinu þeir Bjarni Jónsson á Sauðárkróki (1. sæti), Lárus Ástmar Hannesson í Stykkishólmi (1.-2. sæti) og Rúnar Gíslason í Borgarnesi (1.-3. sæti). Kjörseðlar hafa sem fyrr segir nú verið sendir í hús, en póstkosning fer fram dagana 31. ágúst til 5. september, sem verður síðasti dagur til að póstleggja atkvæðaseðla. Flokksbundnir íbúar í kjördæminu, 16 ára og eldri, geta tekið þátt en þurftu þeir að vera skráðir í flokkinn fyrir 21. ágúst sl.

Í kynningarbæklingi vegna forvalsins segir að atkvæði verða talin í Leifsbúð í Búðardal mánudaginn 12. september kl. 12:00. „Öllum félögum er velkomið að vera viðstaddir talninguna. Mikilvægt er að sem flestir félagar taki þátt í forvalinu og hjálpi þannig kjörstjórn að leggja til efnilegan lista tilvonandi þingmanna,“ segir í kynningarbæklingnum.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir