Hérna eru björgunarsveitarmennirnir Rúnar Þór Ragnarsson, Marínó Ingi Eyþórsson, Kári Gunnarsson og Sveinn Pétur Þorsteinsson fyrir framan Hrafnagil.

Leitað að týndum hermönnum í Hrafnagili

Þann 28. nóvember árið 1941 fórst bresk tveggja hreyfla Vickers Wellington sprengjuflugvél er hún flaug á hamrabelti Svartahnjúks í Kolgrafafirði á Snæfellsnesi. Með vélinni fórust sex breskir hermenn og er þessum atburði gerð góð skil í kvikmyndinni Svartihnjúkur – Stríðssaga úr Eyrarsveit, eftir Hjálmtý Heiðdal. Í hermannagrafreit Fossvogskirkjugarðs eru sex legsteinar en sagan segir að aðeins fjögur lík hafi verið flutt niður af fjallinu. Talið er að lík tveggja hermanna hafi aldrei fundist og voru sögur um reimleika í Kolgrafafirði tengdar þessum tveimur mönnum. Fyrir neðan Svartahnjúk er Hrafnagil sem þykir illfært og var talið að mennirnir hafi jafnvel hrakist þangað niður en afar torfært er þarna um og nær ómögulegt að komast upp aftur nema með viðeigandi sigbúnaði.

Fjórir félagar úr Björgunarsveitinni Klakki í Grundarfirði gerðu út leiðangur laugardaginn 20. ágúst síðastliðinn er þeir fóru með sigbúnað til að síga ofan í hið illfæra gil. Gilið sem um ræðir er fyrir ofan Hrafnafoss sem setur svo sterkan svip á svæðið. Þeir félagar gengu upp fjallið og sigu svo niður í gilið þar sem talið var að enginn hafi farið áður. Ekki urðu þeir varir við nein ummerki eftir hermennina í þessari ferð enda var það ólíklegt eftir öll þessi ár. Þarna verða miklir vatnavextir í leysingum og mikil hreyfing á jarðvegi. Þó var það rætt að gera út annan leiðangur og hafa þá málmleitartæki með í för og athuga hvort að eitthvað af málmhlutum gæti fundist.

Fleiri myndir úr leiðangrinum má sjá í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir