Mokað fyrir nýrri götu í Melahverfinu í Hvalfjarðarsveit. Ljósm. ki.

Gatnaframkvæmdir hafnar í Melahverfi

Í vor var boðið út verk við gatna- og lagnaframkvæmdir í Melahverfinu í Hvalfjarðarsveit og var það Þróttur ehf. á Akranesi sem fékk verkið eftir að hafa gert tilboð upp á 47 milljónir, sem var tæplega 70% af kostnaðaráætlun. Verkið felur í sér að leggja götuna Háamel og hluta Brekkumels, lagningu fráveitu-, vatns-, hitaveitu- og fjarskiptalagna og jarðvinnu fyrir raflagnir. Auk þess að gera frárein við afleggjara frá þjóðvegi eitt inn í Melahverfið. Mælingar voru gerðar á miðvikudaginn í liðinni viku og framkvæmdir hófust á fimmtudaginn.

„Við sjáum um allt verkið, gatnagerð og lagnir. Þetta fer bara allt á fullt núna. Uppgröfturinn verður notaður til landmótunar á svæðinu og til að snyrta,“ segir Helgi Þorsteinsson forstjóri hjá Þrótti ehf. „Áætluð verklok er í byrjun október og væntanlega verðum við um fjórir eða fimm starfsmenn þegar allt kemst á fullt,“ bætir hann við. Að sögn Helga eru þónokkur misstór verk í gangi þessa dagana hjá Þrótti ehf. „Við erum t.d. að vinna að verki hjá Mið-Fossum í Borgarfirði og í Kjósaskarðsvegi en það eru 7 km og verk upp á rúmlega 200 milljónir. Einnig erum við að byrja á verki fyrir Orkuveituna á Hellisheiðinni. Það er því nóg að gera, sem er bara jákvætt,“ segir Helgi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.