Í Stykkishólmi hittu ferðalangar m.a. Sturlu Böðvarsson bæjarstjóra.

Eru á rafbíl á leið frá Reykjavík til Ísafjarðar

Á vegum Samgöngufélagsins stendur yfir í dag og til morguns ferð á rafbíl frá Reykjavík til Ísafjarðar. Ekki er vitað annað en þetta sé fyrsta ferðin milli þessara staða á slíku farartæki. Það eru félagarnir Jónas Guðmundsson, formaður Samgöngufélagsins, og Jón Jóhann Jóhannsson eigandi rafbílsins með einkanúmerið „Fyrsti,“ sem lögðu í hann frá bílastæði við Þjóðskjalasafnið klukkan 9 í morgun. Bíllinn sem um ræðir er af gerðinni Kia Soul og dregur ca. 120 km fullhlaðinn við góðar aðstæður.  Var ferðinni í fyrsta áfanga heitið í Borgarnes og bíllinn hlaðinn þar. Frá Borgarnesi lá leiðin í Stykkishólm og var ekið mjúklega svo rafmagnið entist alla leið. Frá Stykkishólmi var farið með Baldri yfir Breiðafjörð og væntanlega komið að Brjánslæk á Barðaströnd upp úr kl. 18:00 í kvöld. Hlaða á bílinn um borð í Baldri. Nokkur óvissa er um framhaldið en ferðamennirnir vonast að takist að komast a.m.k. 70 km á hleðslunni sem fékkst í Stykkishólmi og um borð í Baldri, eða til Þingeyrar. Ef tvísýnt er um það verður bíllinn væntanlega hlaðinn einhverja stund í Flókalundi og/eða í Mjólkárvirkjun í Arnarfirði. Ef að líkum lætur verður bíllinn síðan settur í hleðslu yfir nótt á Þingeyri eða annars staðar í Dýrafirði og honum ekið til Ísafjarðar og komið að Stjórnsýsluhúsinu þar ekki seinna en um kl. 13:00 á morgun, laugardag.

Tilgangur ferðarinnar er í raun margþættur. Má þar nefna að sýna fram á að mögulegt sé án mikilla vandkvæða að komast á ökutæki sem eingöngu er knúið rafmagni frá Reykjavík til Ísafjarðar og til baka. „Raunar er leiðin sem farin er aðeins fær á sumrin og nýtist ferðin vonandi til að þrýsta á um að farið verði að hefjast handa við gerð nýs vegar um Dynjandisheiði og gerð jarðganga milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar, en við það styttist þessi leið um rúma 30 km og ekki þarf að fara þrönga hlykkjótta og oft holótta malarvegi. Þá er einnig verið að vekja athygli á að mjög óvíða er boðið upp á rafmagnshleðslu við þjóðvegakerfi landsins. Sáraeinfalt á að vera að bjóða upp á „hæghleðslu” úr heimatenglum. Aðeins þarf að reyna að fá sem flesta sem búa eða starfa meðfram þjóðvegakerfinu til að veita þessa þjónustu og að vekja athygli vegfarenda á henni.“

Fóru á rafbíl frá Reykjavík til Ísafjarðar_1 Fóru á rafbíl frá Reykjavík til Ísafjarðar_2

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Með sjaldgæfan blóðtappa

Skagamaðurinn Oliver Stefánsson, sonur Stefáns Þórs Þórðarsonar og Magneu Guðlaugsdóttur, og varnarmaður sænska úrvalsdeildarfélagsins Norrköping, verður frá næsta hálfa árið... Lesa meira