Sævar Harðarson, framkvæmdastjóri Skipavíkur.

„Þetta er alltaf rekið á sömu gömlu góðu kennitölunni“

Skipavík í Stykkishólmi er alhliða verktakafyrirtæki og þar starfa rúmlega 60 manns. Skessuhorn ræddi við Sævar Harðarson í síðustu viku, en hann hefur verið framkvæmdastjóri Skipavíkur síðan 1998, en sama ár keypti Sigurjón Jónsson meirihluta í félaginu. Eru þeir tveir eigendur fyrirtækisins í dag. Eins og nafnið gefur til kynna eru að sjálfsögðu smíðuð skip og bátar hjá Skipavík, auk vélsmíðavinnu sem þeirri starfsemi fylgir. Flest verkefni fyrirtækisins um þessar mundir eru hins vegar á sviði húsbygginga, en þar að auki rekur Skipavík verslun í Stykkishólmi og leigir út fasteignir. „Síðan höfum við undanfarinn áratug sinnt viðhaldi á kerjum í kerskála Norðuráls á Grundartanga. Það er í höndum starfsmanna Skipavíkur sem eru búsettir í Borgarnesi og á Akranesi. Þá sáum við um niðursetningu á öllum straumliðum Norðuráls þegar álverið var stækkað á sínum tíma,“ segir Sævar. „Hjá Skipavík er í rauninni allt nema jarðvinna, pípulagnir og málari. Við höfum reyndar verið með starfandi pípulagningameistara en ekki þessa stundina,“ bætir hann við.

Rætt er nánar við Sævar Harðarson, framkvæmdastjóra Skipavíkur í Stykkishólmi, í Skessuhorni vikunnar.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir