Öflugt tónlistarlíf á Akranesi

Í byrjun sumars var Guðmundur Óli Gunnarsson ráðinn skólastjóri Tónlistarskólans á Akranesi og tók þá við af Lárusi Sighvatssyni sem gegnt hafði starfinu í þrjá áratugi. Guðmundur Óli er því að taka sín fyrstu skref í starfinu en hann hefur þó reynslu af slíku starfi því fyrir allnokkru síðan starfað hann sem skólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri. „Starfið leggst mjög vel í mig. Ég er náttúrulega nýbyrjaður og er ennþá að koma mér inn í hlutina, það hefur gengið vel en þar munar mestu að hafa öflugan aðstoðarskólastjóra sér við hlið,“ segir Guðmundur Óli en aðstoðarskólastjórinn sem um ræðir er Ragnar Skúlason sem unnið hefur við skólann til fjölda ára. Guðmundur segir einnig að samstarf skólans við bæjaryfirvöld sé alveg til fyrirmyndar. „Þetta er gott starfsumhverfi að koma inn í. Samskipti og samstarfið við starfsfólk bæjarskrifstofunnar og yfirstjórn bæjarins eru til fyrirmyndar. Ég get í raun gripið símann hvenær sem er og rætt það sem þarf við þau.“

Gott samstarf við skólana

„Ég hafði heyrt það áður en ég tók til starfa við skólann að á Akranesi væri mjög öflugt tónlistarstarf. Ég hef komist að því í samtölum mínum við stjórnendur grunnskólanna að starfið er í raun betra en ég þorði að vona. Það er mikill vilji hjá skólunum að fá Tónlistarskólann inn í starf þeirra og innan veggja grunnskólanna er unnið mjög gott tónlistarstarf. Í vetur munum við halda áfram samstarfi okkar við Brekkubæjarskóla og Grundaskóla um tónlistarval sem þeir bjóða upp á í unglingadeildum. Tónlistarvalið er í eina önn í senn og endar önnin á tónleikum en þar koma fram hljómsveitir sem myndaðar eru af þátttakendum í tónlistarvalinu. Þá er mjög gott samstarf við grunnskólana um þann hluta af hljóðfærakennslu Tónlistarskólans sem fer fram í grunnskólunum á skólatíma þeirra,“ segir Guðmundur Óli.

Guðmundi Óla þykir sú stefna sem leikskólinn Vallarsel vinnur eftir afar áhugaverð. „Það starf sem unnið er á Vallarseli þar sem lögð er áhersla á tónlist umfram annað er afskaplega áhugavert. Við erum að skoða hvort Tónlistarskólinn geti aðstoðað við það starf og jafnvel hjálpað til við að miðla reynslu Vallarsels til hinna leikskólanna.“

Það er þó ekki bara á Akranesi sem tónlistarstarf blómstrar. „Það hefur verið gott samstarf milli Tónlistarskólans og Hvalfjarðarsveitar en fjöldi nemenda úr Hvalfjarðarsveit sækir nám við Tónlistarskólann. Það góða samstarf mun halda áfram og við viljum leita frekari leiða til að efla og bæta það samstarf,“ segir Guðmundur Óli.

Nánar er rætt við Guðmund Óla í Skessuhorni vikunnar.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Með sjaldgæfan blóðtappa

Skagamaðurinn Oliver Stefánsson, sonur Stefáns Þórs Þórðarsonar og Magneu Guðlaugsdóttur, og varnarmaður sænska úrvalsdeildarfélagsins Norrköping, verður frá næsta hálfa árið... Lesa meira