Svín í lausagöngu. Ljósm. MAST

Jákvæð umskipti hafa orðið í aðbúnaði svína

Úttekt Matvælastofnunar á gyltubúum í landinu nú vor leiddi í ljós að básahald gyltna og geldingar grísa er á undanhaldi og bógsárum á gyltum hefur fækkað og eru nú vægari en áður. Stofnunin hefur unnið úr niðurstöðum eftirlits sem fram fór í apríl og maí 2016 og gefið út samantekt. Farið var í eftirlit á öll svínabú landsins sem halda gyltur, alls 14 bú. Eftirlitið var framkvæmt af dýralækni í viðkomandi umdæmi sem og sérgreinadýralækni svínasjúkdóma. Sambærileg úttekt var framkvæmd árið 2014. „Umskipti hafa átt sér stað milli áranna 2014 og 2016 varðandi geldingar grísa, séu grísir geltir þá er það framkvæmt í samræmi við ákvæði laga og reglna. Bændur hafa í auknum mæli lagt af geldingar eða tekið upp bólusetningu gegn galtarlykt. Halaklippingar eru á undanhaldi, það tekur þó tíma að geta lagt af halaklippingar á búum almennt því varnir gegn halabiti eru nátengdar breytingum á aðbúnaði grísanna. Stakkaskipti hafa orðið á básahaldi gyltna, rúmur þriðjungur búa hafa allar gyltur í lausagöngu, rúmur þriðjungur búa eru með lausagöngu að hluta og unnið er að afnámi básahalds hjá öllum sem enn nota bása. Bógsárum hefur fækkað og eru þau einnig vægari en áður.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir