Litla Lúðrasveitin spilar hér af innlifun síðastliðið vor.

Hæfir og metnaðarfullir kennarar helsti styrkleiki skólans

Tónlistarskólinn í Stykkishólmi hefur göngu sína í lok vikunnar og er nemendafjöldinn svipaður og í fyrra, tæplega hundrað. „Tónlistarskóli Stykkishólms er nú að hefja sitt 53. starfsár. Að jafnaði hafa nemendur verið um 10% bæjarbúa undanfarna áratugi. Námsárangur hefur verið jafn og góður og stenst samanburð við aðra tónlistarskóla sem við viljum bera okkur saman við. Unnið er samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskólanna og hafa nemendur tekið góðum framförum á hljóðfærin sín sem og í tónfræðagreinunum, en við leggjum áherslu á að nemendur láti tónfræðinámið haldast í hendur við framvindu hljóðfæranámsins. Flestir nemendur okkar eru á grunnstigi, en góður hópur er nú kominn á miðstig tónlistarnámsins og fjórir nemendur eru á framhaldsstigi,“ segir Jóhanna Guðmundsdóttir skólastjóri Tónlistarskóla Stykkishólms í samtali við Skessuhorn.

 

Sakna harmonikkunnar

„Píanóið heldur sæti sínu sem vinsælasta hljóðfærið. Trommurnar hafa verið að sækja í sig veðrið og njóta mikilla vinsælda. Önnur hljóðfæri halda sínu striki með örlitlum sveiflum frá ári til árs. Kennt er á öll helstu hljóðfærin nema strokhljóðfæri. Um árabil var kennt á harmonikku en enginn nemandi hefur verið á hana nokkur síðustu árin og má segja að hennar sé nú saknað,” segir Jóhanna.

Í skólanum í ár verða sjö starfsmenn og hafa tveir nýir verið ráðnir. „Annar kennarinn er rússneskur þverflautuleikari, Anastasia Kiakhidi, sem kenna mun á tréblásturshljóðfærin og stjórna stóru lúðrasveitinni og hinn er norskur trompetleikari, Andreas H. Fossum, sem kenna mun á málmblásturshljóðfærin og stjórna litlu byrjendalúðrasveitinni. Að öðru leyti verður mannskapurinn sá sami og verið hefur,“ segir Jóhanna.

 

Spennandi vetur framundan

Jóhanna segir að engin sérstök áherslubreyting muni verða á starfi skólans í vetur. „Orkan fer að einhverju leyti í að koma nýjum kennurum inn í bæjarlífið og hefðir okkar. Við munum einnig teyga í okkur nýja strauma sem eflaust munu fylgja þeim til landsins,“ segir Jóhanna.

„Framundan er spennandi vetrarstarf þar sem blandast inn í kennsluna tónleikar og tónfundir að vanda, einnig ýmsir viðburðir í bænum. Í október reiknum við með að taka þátt í Norðurljósahátíð bæjarins, fyrir jólin munum við halda þeirri hefð að spila og syngja vítt og breitt um bæinn. Eftir jól fögnum við degi tónlistarskólanna, tökum þátt í Nótunni og í vor fögnum við vonandi enn einu góðu ári, góðum árangri og framförum nemenda,” segir Jóhanna.

 

Öflug lúðrasveit ein af sérstöðu skólans

Jóhanna segir að skólinn haf alltaf notið þess mikla metnaðar sem bæjarfélagið hefur fyrir skólanum. „Skólinn hefur notið þess hvað mikill metnaður hefur ríkt í bænum um rekstur hans. Einnig hafa laðast til okkar hæfir og metnaðarfullir kennarar og hefur það verið einn okkar helsti styrkleiki allt frá stofnun árið 1964. Ein sérstaða skólans er hin öfluga lúðrasveit, en Lúðrasveit Stykkishólms, sem stofnuð var árið 1944, stóð á sínum tíma að stofnun skólans. Hún starfar nú undir merkjum tónlistarskólans sem skólalúðrasveit. Lúðrasveitin fór í vel heppnað tónleikaferðalag til Scarborough í Englandi í júní og er tillhlökkun að sjá myndir og heyra fleiri ferðasögur þegar krakkarnir mæta ferskir til leiks í haust. Við erum mjög spennt fyrir komandi skólaári,“ segir Jóhanna að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir