Nemendur tónlistarskólans sáu um trommuslátt á 17. júní í Borgarnesi.

Engar stórvægilegar breytingar á starfi Tónlistarskóla Borgarfjarðar

Starfsemi Tónlistarskóli Borgarfjarðar er nú byrjuð að nýju eftir sumarleyfi. Fín aðsókn hefur verið í skólann og munu um 160 nemendur stunda nám við skólann í vetur. Átta kennarar munu kenna nemendunum og er kjarninn í starfsliðinu er sá sami og í fyrra. Breytingin sem verður er að einn kennari fer í ársleyfi og inn kemur kennari sem var í barneignarleyfi. Því verður sami starfsmannafjöldi og á síðasta starfsári.

 

Blásturshljóðfæri ekki í tísku

Í Borgarfirði er píanóið vinsælast eins og annars staðar á landinu og gítarinn fylgir þar fast á eftir. „Píanóið er og hefur alltaf verið vinsælast. Gítarinn hefur verið að sækja í sig veðrið síðustu ár og einnig trommur. Blásturshljóðfærin virðast ekki vera í tísku núna, sem er synd því það er svo ótalmargt skemmtilegt sem hægt er að búa til úr þeirri samsetningu. Við höfum náð að taka inn flesta sem hafa sótt um en svo sjáum við til hvernig verður þegar við erum byrjuð, þá fáum við yfirleitt fyrirspurnir, en okkur finnst gott að geta tekið við þeim sem óska eftir að komast í tónlistarnám,“ segir Theodóra Þorsteinsdóttir skólastjóri Tónlistarskóla Borgarfjarðar í samtali við Skessuhorn.

 

Taka þátt í afmælishátíð í Borgarnesi

Aðsetur Tónlistarskóla Borgarfjarðar er í Borgarnesi en skólinn er með starfsstöðvar á þremur stöðum í sveitarfélaginu. Theodóra telur að samstarf skólans við leik- og grunnskóla sem og nærsamfélagið í heild sé mjög mikilvægt. „Samstarfið við grunnskólana og leikskólana er mjög gott. Tónlistarkennslan fer fram í grunnskólunum í dreifbýlinu og við fáum reglulega heimsóknir frá leikskólabörnum. Skólinn mun taka þátt í afmælishátíð í Borgarnesi eftir áramótin og það er mjög spennandi verkefni. Svona hlutir gefa starfinu mikinn lit sem gaman er að taka þátt í,“ segir Theodóra.

„Það verður engin stórvægileg breyting á starfinu í ár frá því í fyrra en við ætlum að reyna að halda áfram því góða starfi sem skólinn hefur verið að sinna. Það er alltaf spennandi að fara inn í nýjan kennsluvetur. Við hlökkum til að byrja starfið og bjóðum nemendur okkar velkomna í skólann. Öllum er velkomið að sækja um tónlistarnám og líta við,“ segir Theodóra að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir