Þegar blaðamann bar að garði síðasta fimmtudag var búið að slá upp sökklum að nýrri reiðskemmu Hesteigendafélags Stykkishólms. Daginn eftir var steypt og í byrjun vikunnar voru mótin fjarlægð.

Bygging reiðskemmu í Stykkishólmi gengur vel

Eins og Skessuhorn greindi frá í sumar var í byrjun júnímánaðar tekin fyrsta skóflustungan að nýrri reiðskemmu í Stykkishólmi. Reiðskemman verður 18×38 metrar að flatarmáli og er það Hesteigendafélag Stykkishólms sem stendur að byggingu hennar. Til framkvæmdarinnar söfnuðu félagsmenn nálægt sex milljónum króna. Auk þess fékk félagið beinan styrk frá sveitarfélaginu að verðmæti 12 milljóna króna, auk tæplega  5,7 milljónir króna styrks vegna gatnagerðar- og byggingaleyfisgjalda.

Þegar blaðamann bar að garði í Stykkishólmi í síðustu viku var búið að slá upp fyrir sökklum og að sögn Nadine E. Walter, formanns Hesteigendafélags Stykkishólms, ganga framkvæmdir vel. Steypt var síðasta föstudag og sökkulmótin tekin af á mánudaginn. „Það gengur mjög vel. Það hafa verið nokkur vinnukvöld hjá félögum, alltaf flott mæting og ég er rosalega stolt af mínu fólki hvað það er búið að vera duglegt að mæta,“ segir Nadine í samtali við Skessuhorn. „Reyndar er athyglisvert að 60-70% þeirra sem hafa verið að mæta á þessi vinnukvöld eru konur,“ bætir hún við ánægð.

Nadine segir ekki alveg ljóst hvenær lokið verður við skemmuna, ekki sé alveg víst hvenær félagið geti fengið límtrésgrind hússins afhenta frá Límtré-Vírneti. „En stefnan er að klára þetta fyrir veturinn,“ segir Nadine. Hún segir að bygging skemmunnar sé mikið framfaraskref fyrir starf hesteigendafélagsins. „Það verður algjör bylting að geta æft innanhúss á veturna, haldið námskeið og verið með ýmislegt annað starf. Þetta er ekki síst gott fyrir barnastarfið, því börn ríða náttúrulega ekki út í hvaða veðri sem er. Þannig að þetta mun breyta miklu,“ segir hún.

Líkar þetta

Fleiri fréttir