Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst.

Vilhjálmur harðorður vegna ákvörðunar um að lögreglunám fari á Akureyri

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hefur ákveðið að Háskólinn á Akureyri taki að sér háskólanám í lögreglufræði, en ákvörðun þar að lútandi var kynnt í gær. Gert er ráð fyrir að kennsla hefjist á næstu vikum og að jafnaði muni 40 manns stunda háskólanám í lögreglufræðum. Fjórir háskólar sóttu um að taka námið að sér. Auk HA voru það Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst. Sérstök matsnefnd taldi Háskóla Íslands hæfastan þessara fjögurra skóla, en Háskólann á Akureyri næsthæfastan. Bifröst skoraði lægst hjá matsnefndinni sem bar því við að sálfræði væri ekki kennd á Bifröst. Í aðsendri grein í Skessuhorni í dag harmar Vilhjálmur Egilsson rektor Háskólans á Bifröst þessa ákvörðun menntamálaráðherra og innanríkisráðherra sem fer með málefni lögreglu í landinu. Í greininni beinir hann spjótum sínum sérstaklega að aðstoðarmanni innanríkisráðherra og segir loks: „Í þessu ferli hafa hinir áhugalausu ráðherrar leyft ráðuneytisstarfsmönnum að valta yfir þá þingmenn sem hafa verið að styðja málstað okkar,“ skrifar Vilhjálmur í harðorðri grein sinni. Lesa má grein Vilhjálms Egilsson í heild sinni hér á vefnum.

Nám í lögreglufræði við HA verður 120 eininga tveggja ára starfstengt diplómanám en einnig verður hægt að ljúka bakkalárnámi í lögreglufræði til 180 eininga. Jafnframt verður í boði sérsniðið námskeið fyrir lögreglumenn sem taka að sér verklega þjálfun nemenda.

Líkar þetta

Fleiri fréttir